Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir umferðina ganga hægt og að þónokkuð hafi verið umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdastjóri hjá Árekstur.is segir um fjörutíu óhöpp skráð hjá fyrirtækinu það sem af er degi.
„Þetta er bara erfitt,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
„Umferðin gengur hægt og það er þónokkuð um óhöpp og þetta er alvöru hvellur.“
Aðspurður kveðst hann ekki vera með fjölda skráðra umferðaróhappa hjá sér en að þau væru víða um höfuðborgarsvæðið.
„Þegar svona hvellur kemur á höfuðborgarsvæðið þá hægist á öllu og það eru bílar sem eru enn frekar vanbúnir í þessari færð.“
„Þetta byrjaði laust eftir eitt og við erum búin að vera að stanslaust síðan þá og erum enn að. Þetta er örugglega á fjórða tug síðan þetta byrjaði,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri hjá Árekstur.is.
Hann segir fyrirtækið búa að auka bifreiðum sem eru í keyrslu og auka mannskap:
„Við erum með sjö bíla og þetta er búið að vera stanslaust. Eins og ég segi þá laust eftir hádegi byrjaði þetta og það er enn þá að detta inn á fullu.“
Segir hann óhöppin hafa dreift sér jafnt og þétt yfir daginn hingað til og að þau hafi verið út um alla borg:
„Alveg upp á heiði og langleiðina til Keflavíkur.“
Gular viðvaranir hafa tekið gildi víða um land. Spáð er suðaustan 10-15 m/s og rigningu eða slyddu með kvöldinu.