Var ráfandi við Alþingi eins og innbrotsþjófur

Ingvar Þóroddsson er yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri í nýafstöðnum …
Ingvar Þóroddsson er yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri í nýafstöðnum alþingiskosningum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er stór­sig­ur fyr­ir flokk­inn á landsvísu, en við erum líka extra ánægð í Norðaust­ur­kjör­dæmi því þetta hef­ur verið okk­ar erfiðasta eða eitt af tveim­ur erfiðustu kjör­dæmun­um, “ seg­ir Ingvar Þórodds­son, nýr þingmaður Viðreisn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Hann er jafn­framt yngsti þingmaður­inn sem náði kjöri á þing í ný­af­stöðnum alþing­is­kosn­ing­um. Ingvar er fædd­ur árið 1998 og er því 26 ára.

Viðreisn var síðast með þing­mann í Norðaust­ur­kjör­dæmi árið 2017 en þá var um jöfn­un­arþing­mann að ræða.

„Þetta er því stór­sig­ur að því leyt­inu til að fá kjör­dæma­kjörna þing­menn bæði í Norðaust­ur og Norðvest­ur. Við höf­um unnið eins og brjálæðing­ar að því mark­miði, með okk­ar fram­boðslista og sjálf­boðaliðum.“

Feg­inn að rek­ast á Sig­mar

Þing­flokk­ur Viðreisn­ar kom sam­an strax í gær og mætti þá Ingvar á sinn fyrsta þing­flokks­fund sem hald­inn var í Smiðju við Alþingi.

„Það var mjög skemmti­legt. Ég var þarna ráfandi í kring­um húsið eins og inn­brotsþjóf­ur, að leita að aðal­h­urðinni inn í Smiðju, þegar ég sá Sig­mar koll­ega minn, sem vissi þá hvert ég var að fara og það var létt­ir. Þing­vörður­inn vissi hver ég var, það var skemmti­legt. Það er margt mjög nýtt spenn­andi og rosa­lega flott­ur þing­flokk­ur­inn. Ég er mjög ánægður með þenn­an hóp sem ég er hluti af,“ seg­ir Ingvar, en þing­flokk­ur Viðreisn­ar tel­ur nú 11 þing­menn. 

Ingvar seg­ist nú vera að bíða eft­ir því að fá sím­tal eða tölvu­póst um öll praktísku mál­in sem nýir þing­menn þurfa að kynna sér. 

„Hand­bók þing­manna, ég er ekki enn þá bú­inn að fá hana í hend­urn­ar, en hef heyrt af til­vist henn­ar.“

Finnst hann ekki vera svo ung­ur

Spurður hvernig það legg­ist í hann að vera yngst þingmaður­inn seg­ir hann það bara skemmti­legt.

„Ég veit ekki hversu mikið yngri yngstu þing­menn­irn­ir hafa verið, því mér finnst 26 ára ekki það ungt. Ég hef verið að kenna í mennta­skóla og nem­end­un­um finnst ég vera til­tölu­lega gam­all. Hvort þetta segi að þingið sé gam­alt, ég ver­andi yngst­ur, ég veit það ekki, en það er gam­an að hafa þenn­an titil. Ég hlakka bara til að láta til mín taka og sanna mig fyr­ir þeim sem jafn­vel hef­ur fund­ist ég vera of ung­ur,“ seg­ir Ingvar.

„Ég ætla að reyna að leggja mitt af mörk­um og vera góður full­trúi yngsta kjós­enda­hóps­ins líka,“ bæt­ir hann við.

Þrátt fyr­ir að vera að koma nýr inn á þing er Ingvar ekki al­veg blaut­ur á bak við eyr­un þegar kem­ur að póli­tík­inni, því hann hef­ur verið virk­ur í ungliðastarfi Viðreisn­ar og var einnig í fram­boði árið 2021, en tölu­vert neðar á lista.

„Ég hef verið virk­ur þátt­tak­andi í flokkn­um, en þetta er nýtt hlut­verk og mik­il ábyrgð sem því fylg­ir, en eins og ég segi ég er ekki al­veg grænn.“

Kynnti sér það sem hann þekkti ekki

Ingvar seg­ist hafa nýtt kosn­inga­bar­átt­una mjög vel til að ferðast um kjör­dæmið, ekki bara í þeim til­gangi að veiða at­kvæði, held­ur líka til að kynna sér ým­is­legt sem hann þekkti ekki vel.

„Ræða við eins mikið af fólki og ég mögu­lega gat á þess­um stutta tíma, til þess að nesta mig og líka til að vita hvert ég á að leita þegar koma upp ein­hver mál. Þannig ég geti verið sem best­ur full­trúi þessa kjör­dæm­is sem mér er annt um.“

Tölu­verðar lík­ur eru á að Viðreisn komi að mynd­un nýrr­ar rík­is­stjórn­ar en Ingvar tel­ur að þjóðin vilji ein­mitt sjá flokk­inn í rík­is­stjórn.

Hann bend­ir á að í könn­un­um hafi Viðreisn oft­ar en ekki verið of­ar­lega eða efst á blaði þegar spurt var hvaða flokk fólk vildi sjá í rík­is­stjórn

„Þannig ég held að fólk vilji sjá okk­ur í rík­is­stjórn, jafn­vel þó það hafi ekki greitt okk­ur at­kvæði. Ég held líka að aðrir flokk­ar vilji hafa okk­ur með í rík­is­stjórn. Við vilj­um að okk­ar stefna hafi sem mest um mál­in að segja næstu árin.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert