Var ráfandi við Alþingi eins og innbrotsþjófur

Ingvar Þóroddsson er yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri í nýafstöðnum …
Ingvar Þóroddsson er yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri í nýafstöðnum alþingiskosningum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er stórsigur fyrir flokkinn á landsvísu, en við erum líka extra ánægð í Norðausturkjördæmi því þetta hefur verið okkar erfiðasta eða eitt af tveimur erfiðustu kjördæmunum, “ segir Ingvar Þóroddsson, nýr þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.

Hann er jafnframt yngsti þingmaðurinn sem náði kjöri á þing í nýafstöðnum alþingiskosningum. Ingvar er fæddur árið 1998 og er því 26 ára.

Viðreisn var síðast með þingmann í Norðausturkjördæmi árið 2017 en þá var um jöfnunarþingmann að ræða.

„Þetta er því stórsigur að því leytinu til að fá kjördæmakjörna þingmenn bæði í Norðaustur og Norðvestur. Við höfum unnið eins og brjálæðingar að því markmiði, með okkar framboðslista og sjálfboðaliðum.“

Feginn að rekast á Sigmar

Þingflokkur Viðreisnar kom saman strax í gær og mætti þá Ingvar á sinn fyrsta þingflokksfund sem haldinn var í Smiðju við Alþingi.

„Það var mjög skemmtilegt. Ég var þarna ráfandi í kringum húsið eins og innbrotsþjófur, að leita að aðalhurðinni inn í Smiðju, þegar ég sá Sigmar kollega minn, sem vissi þá hvert ég var að fara og það var léttir. Þingvörðurinn vissi hver ég var, það var skemmtilegt. Það er margt mjög nýtt spennandi og rosalega flottur þingflokkurinn. Ég er mjög ánægður með þennan hóp sem ég er hluti af,“ segir Ingvar, en þingflokkur Viðreisnar telur nú 11 þingmenn. 

Ingvar segist nú vera að bíða eftir því að fá símtal eða tölvupóst um öll praktísku málin sem nýir þingmenn þurfa að kynna sér. 

„Handbók þingmanna, ég er ekki enn þá búinn að fá hana í hendurnar, en hef heyrt af tilvist hennar.“

Finnst hann ekki vera svo ungur

Spurður hvernig það leggist í hann að vera yngst þingmaðurinn segir hann það bara skemmtilegt.

„Ég veit ekki hversu mikið yngri yngstu þingmennirnir hafa verið, því mér finnst 26 ára ekki það ungt. Ég hef verið að kenna í menntaskóla og nemendunum finnst ég vera tiltölulega gamall. Hvort þetta segi að þingið sé gamalt, ég verandi yngstur, ég veit það ekki, en það er gaman að hafa þennan titil. Ég hlakka bara til að láta til mín taka og sanna mig fyrir þeim sem jafnvel hefur fundist ég vera of ungur,“ segir Ingvar.

„Ég ætla að reyna að leggja mitt af mörkum og vera góður fulltrúi yngsta kjósendahópsins líka,“ bætir hann við.

Þrátt fyrir að vera að koma nýr inn á þing er Ingvar ekki alveg blautur á bak við eyrun þegar kemur að pólitíkinni, því hann hefur verið virkur í ungliðastarfi Viðreisnar og var einnig í framboði árið 2021, en töluvert neðar á lista.

„Ég hef verið virkur þátttakandi í flokknum, en þetta er nýtt hlutverk og mikil ábyrgð sem því fylgir, en eins og ég segi ég er ekki alveg grænn.“

Kynnti sér það sem hann þekkti ekki

Ingvar segist hafa nýtt kosningabaráttuna mjög vel til að ferðast um kjördæmið, ekki bara í þeim tilgangi að veiða atkvæði, heldur líka til að kynna sér ýmislegt sem hann þekkti ekki vel.

„Ræða við eins mikið af fólki og ég mögulega gat á þessum stutta tíma, til þess að nesta mig og líka til að vita hvert ég á að leita þegar koma upp einhver mál. Þannig ég geti verið sem bestur fulltrúi þessa kjördæmis sem mér er annt um.“

Töluverðar líkur eru á að Viðreisn komi að myndun nýrrar ríkisstjórnar en Ingvar telur að þjóðin vilji einmitt sjá flokkinn í ríkisstjórn.

Hann bendir á að í könnunum hafi Viðreisn oftar en ekki verið ofarlega eða efst á blaði þegar spurt var hvaða flokk fólk vildi sjá í ríkisstjórn

„Þannig ég held að fólk vilji sjá okkur í ríkisstjórn, jafnvel þó það hafi ekki greitt okkur atkvæði. Ég held líka að aðrir flokkar vilji hafa okkur með í ríkisstjórn. Við viljum að okkar stefna hafi sem mest um málin að segja næstu árin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert