Vilja búvörulagafrumvarp beint í Hæstarétt

Eftirlitið telur málið geta haft almenna þýðingu um stjórnskipulegt gildi …
Eftirlitið telur málið geta haft almenna þýðingu um stjórnskipulegt gildi laga um breytingu á búvörulögum og þann áskilnað sem felst í 44. gr. stjórnarskrárinnar um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur óskað eftir leyfi til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur beint til Hæstaréttar. Eftirlitinu er heimilt að óska eftir áfrýjun beint til Hæstaréttar ef niðurstaða máls talin hafa fordæmisgildi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SKE

Héraðsdómur kvað upp dóm sinn 18. nóvember að undanþágur frá samkeppnislögum sem heimila kjötafurðastöðvum að sameinast og hafa tiltekið samráð sín á milli hafi stríðið gegn stjórnskipunarlögum.

Héraðsdómur felldi úr gildi ákvörðun SKE þar sem eft­ir­litið synjaði kröfu inn­flutn­ings­fyr­ir­tæk­is­ins Innn­es um íhlut­un vegna breyt­ing­anna.

Hafi þýðingu fyrir stjórnarskrána

Matvælaráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á búvörulögum fyrr á árinu og gerði atvinnuveganefnd umtalsverðar breytingar á frumvarpinu sem vörðuðu meðal annars umrædda undanþágu frá samkeppnislögum.

SKE segist í tilkynningu telja augljóst að málið hafi fordæmisgildi um heimild til þess að beita samkeppnislögum vegna samruna kjötafurðastöðva og annarrar háttsemi slíkra félaga sem kann að fara gegn ákvæðum samkeppnislaga.

Eftirlitið telur málið geta haft almenna þýðingu um stjórnskipulegt gildi laga um breytingu á búvörulögum og þann áskilnað sem felst í 44. gr. stjórnarskrárinnar um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi.

„Samkeppniseftirlitið hefur einnig í dag ritað kjötafurðastöðvum og samtökum þeirra bréf. Er þar greint frá ákvörðun eftirlitsins um að áfrýja dómi héraðsdóms. Jafnframt er þeim tilmælum beint til viðkomandi aðila að grípa ekki til neins konar aðgerða sem farið geta gegn samkeppnislögum á meðan mál þetta er fyrir dómstólum,“ segir í tilkynningu SKE.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka