Ætla ekki að þiggja biðlaun

Þessir nýju stólar bíða nýkjörinna þingmanna við Austurvöll.
Þessir nýju stólar bíða nýkjörinna þingmanna við Austurvöll. mbl.is/Eyþór

Sex af nýkjörnum alþingismönnum eru embættismenn ríkisins, þau Alma Möller, Grímur Grímsson, Halla Hrund Logadóttir, Ingibjörg Davíðsdóttir, Karl Gauti Hjaltason og Víðir Reynisson. Þau eiga rétt á biðlaunum og flest þeirra rétt á sínu gamla starfi þegar þingferli lýkur. Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla er í ársleyfi frá störfum.

Morgunblaðið tók nokkur þeirra tali og spurði hvort þau myndu nýta sér þann rétt sem þau eiga samkvæmt lögum.

Fá leyfi en ekki biðlaun

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segist ekki munu þiggja biðlaun þegar hann tekur sæti á þingi en mun óska eftir leyfi frá sínu gamla starfi á meðan hann gegnir þingmennsku.

Halla Hrund Logadóttir fyrrverandi orkumálastjóri segist ekki munu þiggja biðlaun þegar hún tekur sæti á Alþingi. „Það er settur orkumálastjóri í minn stað og ég fer ekki til baka í það hlutverk.“

Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segist ekki ætla að þiggja biðlaun en hann muni óska eftir leyfi frá störfum á meðan hann situr á þingi.

Víðir Reynisson.
Víðir Reynisson.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segist ekki munu þiggja biðlaun, en hann muni óska eftir leyfi frá núverandi starfi á meðan hann gegni þingmennsku.

Hann segist ekki gera kröfu um ráðherraembætti og muni ganga í þau störf sem honum verða falin.

Leyfi ráðuneytisins framlengt

Ingibjörg Davíðsdóttir fyrrverandi sendiherra er í leyfi frá störfum í utanríkisþjónustunni og hefur það leyfi nýlega verið framlengt, en leyfið fékk hún til að stofna Íslenska fæðuklasann. Þar er ekki búið að ákveða framhaldið eftir að Ingbjörg var kosin á þing. Hún mun ekki þiggja biðlaun.

Ingibjörg Davíðsdóttir.
Ingibjörg Davíðsdóttir.

Jón Pétur Zimsen sagðist ekki hafa kynnt sér nægilega vel hver réttur hans til leyfis væri nú þegar hann settist á þing. Hann segist ekki munu þiggja biðlaun standi þau til boða.

Ekki náðist í Ölmu Möller landlækni við vinnslu fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert