Andlát: Bergur Felixson

Bergur Felixson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur, lést 1. desember sl. á Landspítalanum í Fossvogi, 87 ára að aldri.

Foreldrar Bergs voru Sigurþóra Steinunn Þorbjörnsdóttir húsfreyja og Felix Guðmundsson framkvæmdastjóri Kirkjugarðanna. Alsystir Bergs var Þórunn Helga vélritunarkennari, f. 1935, en sonur hennar er Felix Valsson gjörgæslulæknir. Hann á tvær dætur. Hálfbróðir Bergs var Jóhannes Gudmundsson, f. 1922, en hann bjó alla sína ævi í Danmörku og eignaðist þrjá syni.

Bergur ólst upp á Freyjugötu og síðar Grenimel. Gekk í Ísaksskóla, Melaskóla og Gagnfræðaskólann við Hringbraut. Síðar fór Bergur í MA, þaðan sem hann lauk stúdentsprófi árið 1958. Hann lauk kennaraprófi og stundaði framhaldsnám í stærðfræði og stærðfræðikennslu.

Bergur vann ýmis störf, m.a. hjá Sementsverksmiðju ríkisins, fyrir Loftleiðir í Stavanger í Noregi og á Fræðsluskrifstofu ríkisins. Árið 1968 varð hann skólastjóri Barna- og unglingaskólans á Blönduósi og starfaði þar til 1975. Hann gerðist framkvæmdastjóri Barnavinafélagsins Sumargjafar frá 1975-1978 og tók svo við sem framkvæmdastjóri Leikskóla Reykjavíkur árið 1978 og starfaði þar þar til hann fór á eftirlaun árið 2007.

Eftirlifandi eiginkona Bergs er Ingibjörg Sigrún Guðmundsdóttir, f. 1942, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi hjúkrunarframkvæmdastjóri. Börn þeirra eru Felix leikari, f. 1967, eiginmaður hans er Baldur Þórhallsson prófessor og eiga þeir tvö börn; Þórir Helgi veitingamaður, f. 1968, sambýliskona hans er Birta Gunnhildardóttir, kynningarstjóri hjá Borgarbókasafninu, en þau eiga samtals sex börn; Sigurþóra Steinunn, framkvæmdastjóri Bergsins Headspace, f. 1972, eiginmaður hennar er Rúnar Unnþórsson prófessor og eiga þau þrjú börn en eitt þeirra, Bergur Snær, er látið; Guðbjörg Sigrún, deildarstjóri hjá Ríkislögreglustjóra, f. 1982, eiginmaður hennar er Stefán Helgi Jónsson hagfræðingur og eiga þau þrjú börn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert