Barnabætur fyrirframgreiddar á fæðingarári barns

Barnabætur verða frá og með næsta ári einnig fyrirframgreiddar á fæðingarári barns í samræmi við nýja reglugerð fjármála- og efnahagsráðherra sem tekur gildi 1. janúar 2025.

Í núverandi barnabótakerfi tekur greiðsla barnabóta mið af fjölda barna í lok síðastliðins árs og hafa foreldrar janúarbarna því þurft að bíða í þrettán mánuði eftir fyrstu greiðslu barnabóta í febrúar ári síðar. Nú mun þessi biðtími verða að hámarki fjórir mánuðir, að því er segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins. 

Barnabætur eru greiddar út fjórum sinnum á ári í núverandi kerfi. Fyrstu tvær greiðslur ársins eru fyrirframgreiðslur í febrúar og maí og nema þær helmingi áætlaðra barnabóta ársins. Þær eru dregnar frá útreiknuðum barnabótum ákvörðuðum við álagningu miðað við tekjur á skattframtali og er eftirstöðvunum skipt í tvær greiðslur í júní og október, segir enn fremur. 

Fyrirframgreiðsla barnabóta á fæðingarári barns tekur mið af 50% af hámarksfjárhæð barnabóta fyrir hjón og sambúðarfólk og reiknast sem hlutfall af fjárhæð barnabóta sem gilda við álagningu á fæðingarárinu. 

Nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert