Njósnafyrirtækið Black Cube er sagt hafa verið ráðið af íslenskum og erlendum náttúruverndarsamtökum til að hlera son Jóns Gunnarssonar, í tengslum við útgáfu hvalveiðileyfis.
Þetta kemur fram á ísraelska miðlinum ynetnews.com. Þar er rætt við Giora Eiland, fyrrverandi formann öryggisráðs Ísraelsríkis, sem í dag starfar sem ráðgjafi Black Cube.
Segir í fréttinni að með þessu athæfi hafi komist upp um spillingu í íslenska stjórnkerfinu sem hafi miðað að endurnýjuðu hvalveiðileyfi.
Eins og fram hefur komið hitti meintur fulltrúi Black Cube son Jóns Gunnarssonar, Gunnar Bergmann, undir því yfirskini að hann hygði á stórfelldar fasteignafjárfestingar hérlendis.
Fór hann meðal annars í ferðir um höfuðborgarsvæðið með Gunnari til að kanna möguleg fasteignakaup. Eftir fund þeirra á Edition hóteli var hann hins vegar á bak og burt og hafði í farteskinu leynilegar upptökur af Gunnari að tala um hvalveiðar.
Þar hafði Gunnar orð á því að Jón hygðist veita Kristjáni Loftssyni, eiganda Hvals hf., einkaleyfi til hvalveiða.
Í ísraelska fjölmiðlinum er fullyrt að lífum hvala hafi verið bjargað með athæfinu.
Segir einnig að þegar mál komi á borð Black Cube séu þau flokkuð sem rauð, gul og græn. Rautt þýðir að fyrirtækið snerti ekki á málinu, grænt að þau telji ásættanlegt að taka málið að sér en gult þýðir að málið sé viðkvæmt en hagstætt fjárhagslega.
Fimm til sex manna nefnd fer yfir hvert mál áður en fyrirtækið fellst á að taka það að sér.
Þá segir að fyrirtækið taki eitt mál á ári að sér án þess að þiggja greiðslu fyrir. Þetta var ekki eitt slíkra mála en haft er eftir Giora Eiland, sem situr í áðurgreindri nefnd, að í þessu tilfelli hafi mannúðarsjónarmið haft áhrif.
Segir að farið hafi verið yfir net manneskja er tengist Jóni Gunnarssyni og að Gunnar, sonur hans, hafi verið valinn því hann hafi mikið sjálfstraust og tilhneigingu til þess slá um sig til að vilja hrífa þann sem hann talar við.
Segir Eiland að það hafi verið „góð tilfinning“ að hafa haft áhrif á málin með þeim hætti að ekki hafi verið gefið út hvalveiðileyfi áður en stjórnarskipti urðu á Íslandi.
Í þessu samhengi ber að taka fram að málið liggur enn í matvælaráðuneytinu og alls óvíst er hvort hin leynilega aðgerð hafi borið árangur.