Ólafur E. Jóhannsson
„Það líður að því. Ég þarf bara að klára mín mál hjá borginni og ræða við mitt varafólk sem er fast í sínum störfum. Það þurfa allir að endurskipuleggja sig, en ég get ekki verið á báðum stöðum,“ segir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, nýkjörin þingmaður Flokks fólksins og borgarfulltrúi í Reykjavík, spurð hvort hún muni segja af sér starfi borgarfulltrúa í Reykjavík þegar hún tekur sæti á Alþingi.
Segist hún búast við að segja af sér sem borgarfulltrúi fljótlega á nýju ári.
„Nú er fjárhagsáætlun í gangi hjá okkur í borginni og ég hef haldið um þá tauma og get ekki stokkið samdægurs í burtu,“ segir hún.
Spurð hvort hún muni þiggja biðlaun hjá borginni eftir að hún sest á Alþingi segist hún ekki vera nægjanlega vel að sér varðandi þær reglur sem um það gilda, en kveðst munu kynna sér þær.
Í samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg segir um biðlaun borgarfulltrúa, að þeir sem láti af starfi borgarfulltrúa eftir borgarstjórnarkosningar eigi rétt á biðlaunum eftir nánari reglum þar um. Hins vegar þegar borgarfulltrúi sem hlýtur lausn frá störfum samkvæmt 30. gr. sveitarstjórnarlaga víkur úr borgarstjórn á hann ekki rétt á biðlaunum, að því er segir í téðum samþykktum.
Hins vegar er ekkert sem kemur í veg fyrir að sveitarstjórnarfulltrúi geti líka setið á þingi og gegnt báðum störfum, þ.e. fengið greitt fyrir tvö full störf sem kjörinn fulltrúi.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.