Fjölmenni var á Keflavíkurflugvelli laust eftir hádegi þegar fyrsta Airbus-vél Icelandair lenti þar.
Arnar Jökull Agnarsson og Kári Kárason flugu vélinni heim frá Hamborg í Þýskalandi og hefur flugvélin, sem er af gerðinni A321LR og ber skráningarnúmerið TF-IAA, verið nefnd Esja.
Þetta er fyrsta Airbus-flugvél flugfélagsins í 87 ára sögu Icelandair.
Icelandair á von á þremur vélum sömu tegundar fyrir sumarið 2025 en Airbus-vélarnar munu taka við af Boeing 757 vélum félagsins.
Vélarnar eru búnar Pratt & Whitney GTF™ hreyflum. Þær eru af nýrri kynslóð sparneytinna flugvéla og munu þannig styðja við sjálfbærnivegferð félagsins en gert er ráð fyrir að þær séu allt að 30% sparneytnari en þær vélar sem þær taka við af og mun hljóðlátari. Flugdrægi vélanna er 4.000 sjómílur eða 7.400 kílómetrar og munu þær því geta sinnt öllum áfangastöðum sem Boeing 757 vélar Icelandair hafa sinnt hingað til, segir í tilkynningu frá Icelandair
Fyrsta farþegaflug vélarinnar er áætlað til Stokkhólms 10. desember.
Rangt var farið með nafn Arnar Jökuls Agnarssonar og hann sagður Arnarson. Fréttin hefur verið uppfærð.