Fjárhagsáætlun samþykkt í borgarstjórn

Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri. mbl.is/Karítas

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í atkvæðagreiðslu í borgarstjórn í kvöld en Einar Þorsteinsson borgarstjóri mælti fyrir frumvarpi um fjárhagsáætlun í fyrsta sinn.  

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að gert sé ráð fyrir tæplega 1,3 milljarða króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta sem fari síðan batnandi út áætlunartímabilið til samræmis við markmið fjármálastefnu.   

Borgin sé að ná markmiðum sínum

„Þetta er metnaðarfull áætlun sem felur það í sér að það er verið að fjárfesta í fólkinu í borginni, fjölskyldunum, velferð þeirra og öryggi – og horft til framtíðar,“ sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri við upphaf umræðunnar í borgarstjórn sem var um hádegisbil í gær.

Hann sagði að stóra myndin væri sú að Reykjavík sé að ná markmiðum sínum frá síðustu fjárhagsáætlun hraðar en gert var ráð fyrir og þakkaði starfsfólki og stjórnendum borgarinnar fyrir sinn ómetanlega þátt í því.  

Staðan verri en hann hélt

Fjárhagsáætlunin var rædd í liðlega 11 klukkustundir í borgarstjórn. 

Einar sagði jafnframt að öguð fjármálastjórn hafi skilað mikilli breytingu til hins betra í rekstri borgarinnar en þegar Einar tók við starfinu á tímabilinu sagði hann fjárhagsstöðu borgarinnar vera verri en hann hafði talið. 

„Við höldum áfram að vaxa út úr vandanum sem við höfum verið að takast á við frá upphafi kjörtímabilsins. Fáir trúðu því að okkur tækist að snúa um 16 milljarða halla í afgang á svo skömmum tíma en það hefur tekist með agaðri fjármálastjórn og samvinnu innan meirihlutans.“ 

Hér má sjá fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert