Fundar með Þorgerði og Ingu eftir hádegi

Kristrún Frostadóttir ræddi við fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund hennar …
Kristrún Frostadóttir ræddi við fjölmiðla á Bessastöðum eftir fund hennar með forseta Íslands. mbl.is/Karítas

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ætlar að funda með formönnum Viðreisnar og Flokks fólksins strax eftir hádegi til að ræða stjórnarmyndun. 

Þetta sagði Kristrún eftir að hafa fengið stjórnarmyndunarumboð frá forseta Íslands í morgun. 

„Brýnt að fara strax af stað“

„Það eru skýrar niðurstöður út úr þessum kosningum um að fólk vill sjá breytingar í landsstjórninni. Mér hefur verið falið af forseta Íslands að mynda ríkisstjórn í landinu. Það er þannig, að mínu mati og að mati flestra, að það eru þrír flokkar sem náðu hvað mestum árangri í þessum kosningum, það er Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins,“ sagði hún og bætti við að það væri brýnt að fara strax af stað í stjórnarmyndunina og að það skipti máli að ná ákveðinni festu í landsstjórnina.  

Kristrún Frostadóttir á Bessastöðum.
Kristrún Frostadóttir á Bessastöðum. mbl.is/Karítas

„Lækkun vaxta og verðbólgu“

„Ég held að lykilatriðið hjá næstu ríkisstjórn hljóti að vera það að halda efnahagsmálunum í festu og á góðum stað. Númer eitt, tvö og þrjú verður að skapa áframhaldandi skilyrði fyrir lækkun vaxta og verðbólgu. Svo þurfum við líka að sinna innviðunum og tryggja að það verði forsendur fyrir áframhaldandi verðmætasköpun sem styrkir velferðarkerfin okkar,“ bætti hún við. 

„Ættum að geta náð saman“

„Ég er bjartsýn og fer inn í þetta með jákvæðum augum,“ sagði hún, spurð hvort flokkarnir þrír geti náð saman um það sem skipti máli. 

„Það er verulega mikill málefnalegur grundvöllur og samleið fyrir málefnunum í þessu samhengi. Auðvitað eru ólíkar áherslur, þess vegna erum við í sitthvorum flokkunum. En ég held að við ættum að geta náð saman um mörg stór og mikilvæg mál og það verður að ráðast á næstu dögum. Ég væri ekki að fara í þessa vegferð nema ég tryði því að ég gæti náð árangri,” sagði Kristrún jafnframt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/Arnþór

Erum lausnamiðaðar

Spurð hvað viðræðurnar gætu tekið langan tíma svaraði Kristrún: „Ég held að það sjái það allir landsmenn að það er ekki tími til þess að dvelja alltof lengi í þessu, annað hvort er málefnalegur grundvöllur eða ekki. Ég er jákvæð og lausnamiðuð og við verðum það allar. Ég þekki þessar konur úr fyrri tíð í samstarfi og ég held að það sé ríkur vilji til að láta þetta ganga upp. Efnahagsmálin hafa verið víða aðalatriðið, innviðamálin, ákveðin atriði í heilbrigðismálum til dæmis og ég ætla að fara bjartsýn í þessar viðræður.“

Hún sagði að í viðræðunum verði grundvallaratriði að byrja á þeim málum þar sem flokkarnir eiga samleið. 

Spurð hvort hún gerði ráð fyrir að verða forsætisráðherra sagðist Kristrún ekki vilja ræða um það á þessum tímapunkti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert