„Þetta kom þannig til að fólk í kennslumiðstöð hjá mér og framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu komu til mín og sögðu mér að við hefðum möguleika á því að ráða Magnús Smára í verkefni í tvö ár,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, í samtali við mbl.is en skólinn hefur ráðið Magnús Smára Smárason, sérfræðing í kjaramálum hjá Einingu-Iðju, í nýtt starf verkefnastjóra í gervigreind.
Hefur Magnús Smári, sem er meistaranemi í lögfræði, störf í janúar og er ráðinn til tveggja ára en hann hefur kynnt sér gervigreind á námskeiðum við Oxford-háskólann breska og á sér raunar margbrotinn náms- og starfsferil, en verkefnastjórinn nýi verður hér einnig til viðtals auk rektors.
„Allir sem eru í akademíunni og í kennslu finna það að gervigreindin er það sem á eftir að umbylta menntun og fólk er að prófa sig áfram, skoða hvar það getur notað þetta og hvar ekki, nemendur eru að því líka og við sáum þarna færi á að ráða mann með mikla sérþekkingu í tveggja ára verkefni til að reyna að koma okkur upp á næsta stig,“ heldur Áslaug rektor áfram.
Með ráðningu Magnúsar Smára stíga stjórnendur Háskólans á Akureyri skref inn á óplægðan akur á þeim vettvangi með því að verða fyrsti háskóli landsins til þess að ráða til sín sérfræðing í gervigreind í því augnamiði að leiða innleiðingu hennar í skólastarfið og fer rektor ekki í grafgötur með eftirvæntingu sína.
„Við viljum að hann geti helgað sig þessu verkefni,“ segir Áslaug, „þau sem hafa verið að kynna sér þetta verkefni eru í öðru líka en þarna erum við komin með mann sem hefur þetta sem sitt verkefni og við vonumst til þess að á næstu tveimur árum verðum við komin með sýn á hvernig við viljum nota þetta til að efla skólann,“ heldur hún áfram.
En „mál es vílmögum at vinna erfiði“ er gullvægt vísuorð úr Bjarkamálum hinum fornu og Magnúsi Smára er ekki ætluð lognmollan í menntastofnuninni norðlensku.
„Hann mun líka hjálpa okkur í stoðþjónustunni við að finna út hvernig við getum náð meiri afköstum í okkar störfum,“ segir Áslaug og á við þjónustuframboð Háskólans á Akureyri gagnvart nemendum og og starfsfólki skólans, kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð, bókasafn, tækniþjónustu, nemendaskrá og bókhald svo eitthvað sé nefnt. „Hann er að vinna fyrir allan háskólann,“ segir rektor með áherslu.
Kveður hún það þungamiðju málsins hvað það sé sem æskilegt teljist að gervigreind hjálpi starfsfólki og nemendum Háskólans á Akureyri við. „Hvaða verkefni viljum við losna við, hvað er hægt að gera sjálkrafa og hvernig getum við gert þetta þannig að passi okkur?“
En hvar liggja mörkin? Nú hafa efasemdarmenn rætt um fjölbreytt svindltækifæri hvað gervigreind og skólastarf snertir, svo ekki sé minnst á að á efsta degi hafi enginn vinnu lengur. Hvað sýnist þér á þeim vettvangi?
„Í öllu menntakerfinu eru vissar áhyggjur af því að fólk sé að nota gervigreind,“ svarar rektor um hæl, „í dag var hér í heimsókn hjá okkur Gísli Ragnar Guðmundsson sem hefur verið að vinna hjá háskóla-, nýsköpunar- og iðnaðarráðuneytinu að þessum málum. Það sem stendur upp úr er að við notum þessi tól til að efla okkur, ekki til þess að hætta að gera hluti. Við getum valdeflt fólk í því að nota þessi tæki á hátt sem hjálpar því að einfalda þessi störf eða gera kennsluna betri og líka að nemendur átti sig á því hvar þeir geti notað þessi tól. Það eru allir að prófa sig áfram, þetta eru tækifæri, það má ekki gleyma því, og við eigum ekki bara að vera hrædd við þetta,“ segir Áslaug rektor.
„Við erum að vonast til þess að ráðning Magnúsar Smára verði til þess að við skiljum þessi tæki og tól betur og getum orðið betri í því sem við erum að gera og lærum hvaða tækifæri eru í þessu. Ég bind miklar vonir við þessa ráðningu Magnúsar Smára og vona að við verðum á allt öðrum stað eftir tvö ár,“ segir Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, um fyrstu ráðningu sérfræðings í gervigreind til íslensks háskóla í því augnamiði að innleiða hana í skólastarfið.
„Ég er að taka við stöðu verkefnastjóra gervigreindar við Háskólann á Akureyri,“ játar Magnús Smári Smárason er mbl.is krefur hann svara um það sem hann á í vændum við stofnunina. „Ég hef alla tíð verið hrifinn af tækni og tölvum,“ segir nýi gervigreindarsérfræðingurinn sem óhætt er að segja að hafi marga fjöruna sopið á íslenskum vinnumarkaði, menntaður múrari, á að baki sextán ára starf í slökkviliði Akureyrar sem slökkviliðsmaður og bráðatæknir, hefur lokið BA-prófi í lögum, leggur stund á MA-nám í þeim auk þess að eiga að baki námsvist við annálaðar erlendar menntastofnanir.
„Ég lauk BA-prófi í lögfræði samhliða starfi í slökkviliðinu og hélt því næst til Bandaríkjanna í sérnám í sjúkraflutningum,“ segir Magnús Smári sem hætti í slökkviliðinu 2022 og settist inn á skrifstofu í stað þess að bjarga fasteignum og lausamunum frá snarkandi logum.
„Þá byrjar þetta að vera á skjánum við hliðina á mér og ég átta mig á að eitthvað stórt sé að gerast og fer að grúska í þessu, sé strax að þarna eru mikil tækifæri en einnig margt sem ber að varast,“ heldur Magnús Smári áfram og segir af því er hann hélt til náms í Oxford sem opnaði augu Norðlendingsins fyrir nýrri vídd.
„Einhvern veginn kemst ég þarna inn í ákveðinn samstarfshóp tengdum skólanum og einnig rannsóknarhóp utan skólans sem ég hef verið virkur í síðan og tengist því að kenna fólki, sem er ekki með tæknilegan bakgrunn, þessa nýju tækni í gervigreind. Þetta varð til þess að ég setti upp og þróaði námskeið fyrir símenntun Háskólans á Akureyri sem ég kalla „Að temja tæknina“ vegna þess að eðli þessarar tækni er þannig að henni verði að fullu stjórnað,“ útskýrir Magnús Smári.
Segir hann risamállíkön (e. large language models) vega hvað þyngst í gervigreindinni, svo sem það sem helst einkennir hið umtalaða forrit ChatGPT og Clod. „Það er mikil alþjóðapólitík í þessu, kínversk módel eru að koma sterk inn núna og það er mikill titringur vegna þessa útspils Kínverja.“
Magnús Smári spáir óstöðugu tímabili fram undan á meðan heimsbyggðin nái jafnvægi í því hvernig hún hyggist nýta þessa nýju tækni og hvaða áskoranir og áhættur komi upp í ferlinu.
„Þetta er einstakt að því leyti að þessi tækni talar við okkur á okkar tungumáli. Þetta er í fyrsta skipti sem við getum átt náttúrulegt samtal við tölvu sem líkist manneskju. Þessar nýju lausnir sem eru að koma fram í hverri viku,“ segir Magnús Smári sem ritað hefur fjölda pistla um gervigreind á vefmiðilinn akureyri.net.
„Þetta er gríðarlega mikil valdefling fyrir einstaklinginn og það er kannski þess vegna sem maður er spenntur fyrir að takast á við þetta starf í háskóla – fullt af fólki er að nota tæknina og gera góða hluti með henni og nú hefur Háskólinn á Akureyri markað sér þá stefnu að fara að nota þessa tækni. Fyrir menntakerfið í heild eru þetta gríðarlega mörg tækifæri, en áskoranirnar eru líka gríðarmargar, hvernig ætlarðu að mæla þekkingu þegar nemendur hafa aðgang að þessum gríðarlega öflugu tólum?“ spyr hinn nýi sérfræðingur Háskólans á Akureyri og verður vitanlega oft fátt um svör er stórt er spurt.
Hann kveður notendur gervigreindar þurfa að tileinka sér nýja lykilfærni. Nálgist þeir nýju tæknina af ábyrgð geti hún orðið mikil valdefling. „Með því að nýta sér þetta er hægt að gera rosalega mikið með litlu, þetta getur rutt fjölda hindrana vegna mannauðs og fjármagns í burtu, núna ertu bara með einhverja vél sem getur unnið fyrir þig allan sólarhringinn og allt árið.
Hefur þetta bara jákvæð áhrif á vinnumarkaði, tekur gervigreind að lokum ekki yfir allt á vinnumarkaði?
„Þetta eru þessar stóru og risastóru spurningar sem þarf að velta upp. Við erum síðasta kynslóðin sem man tímann fyrir tölvur og fyrsta kynslóðin sem verður með gervigreind,“ segir Magnús Smári sem er fæddur árið 1985 og liggur því nánast á mörkum þeirrar kynslóðar er hann vísar til.
„Núna er þetta ekki val lengur, þetta mun hafa gríðarleg áhrif á alla tækni, áhrif á vinnumarkað og störf verða mikil en við höfum alltaf staðið frammi fyrir því í sögunni að tæknin sé að fara að taka yfir en alltaf erum við þó hér,“ segir Magnús Smári og nefnir algenga spurningu í framhaldinu.
„Ef við veltum fyrir okkur nýkapítalisma er hið fullkomna fyrirtæki ekki með neina starfsmenn en framleiðir fullt af drasli. Og hver á þá að kaupa það?“ er lokaspurningin í þessu viðtali við Magnús Smára Smárason og svarið við henni mun tíminn líkast til einn leiða í ljós.
Vituð ér enn eða hvat?