Umboðsmaður Framsóknarflokksins lagði fram beiðni um endurtalningu í Suðvesturkjördæmi eftir kosningar á laugardag. Formaður yfirkjörstjórnar kjördæmisins segir að engin skýr heimild sé fyrir yfirkjörstjórnina í kosningalögum til þess að taka ákvörðun um endurtalningu.
Þetta segir Gestur Svavarsson, formaður yfirkjörstjórnar Suðvesturkjördæmis, í samtali við mbl.is.
Yfirkjörstjórnin fundaði í gærkvöldi og sendi eftir fundinn umboðsmanni Framsóknarflokksins svar þar sem vísað var í kosningalög og lög um þingsköp Alþingis en þar er undirbúningsnefnd gefin, að sögn Gests, býsna góð tæki til að bregðast við eða fara sjálf í alls kyns athuganir, þ.á.m. endurtalningu.
Í svarbréfi yfirkjörstjórnarinnar, sem mbl.is hefur fengið sent, er vísað til kosningalaga og segir að ákvæði kosningalaga hafi ekki að geyma heimild til handa yfirkjörstjórn til þess að taka ákvörðun um endurtalningu.
Þá er einnig vísað til breytinga á lögum um þingsköp sem samþykkt voru þann 18. nóvember en þar er gert ráð fyrir að undirbúningsnefnd skipuð níu kjörnum Alþingismönnum hafi það hlutverk að rannsaka framkvæmd Alþingiskosninga.
„Með lögunum er undirbúningsnefndinni falið að sannreyna úrslit kosninga, þ.m.t. að telja atkvæði eða óska eftir að kjörstjórnir geri það, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna.
Yfirkjörstjórn lítur svo á að með lögunum sé kveðið á um skýra heimild fyrir undirbúningsnefndina til að taka ákvörðun um endurtalningu atkvæða og því tilefni til þess að álykta um að heimildin liggi ekki annars staðar. Samkvæmt framansögðu telur yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis sig þannig ekki bæra til þess að fjalla frekar um beiðnina,“ segir í svari stjórnarinnar.
„Þannig að svarið fólst eiginlega í því að við töldum að við hefðum ekki skýra lagaheimild til þess að bregðast við,“ segir Gestur
Þá tekur Gestur fram að yfirkjörstjórnin hafi fylgt atkvæðatalningunni eins og kveðið sé á um í lögum og reglugerðum undir lögum um talningar.
Um næstu skref segir Gestur að landskjörstjórn hafi boðað til úthlutunarfundar á föstudag þar sem úthlutað verður þingsætum á grundvelli skýrslna sem landskjörstjórn hefur fengið úr öllum kjördæmum og er þar umboðsmönnum boðið að vera viðstaddir.
Eftir það muni landskjörstjórn fara yfir ágreiningsatkvæði og þar á eftir mun taka til starfa undirbúningsnefndin sem hafi heimild til þess að taka ákvörðun um endurtalningu.
Hann segir að öðru leyti að yfirkjörstjórnin í Suðvesturkjördæmi hafi lokið sínum störfum
„Við erum reyndar að hittast á morgun bara til þess að fara yfir seinustu fundargerð og rita yfir hana. Svo eigum við eftir að koma ágreiningsatkvæðunum til landskjörstjórnar svo hún geti farið að nota þau. En það er allt búið í sjálfu sér af okkar hálfu.“