Halla hyggst tilkynna um umboð í dag

Búast má við tilkynningu frá forsetanum í dag.
Búast má við tilkynningu frá forsetanum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halla Tómasdóttir forseti Íslands hyggst tilkynna í dag hverjum hún mun veita umboð til stjórnarmyndunar.

Forsetinn fundaði í gær með formönnum þeirra flokka sem náðu kjöri á Alþingi.

Fastlega er búist við að Halla veiti Kristrúnu Frostadóttur formanni Samfylkingarinnar umboðið. Kristrún vildi ekki gefa upp hvaða formenn hún hefði rætt við.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar upplýsti þó að þær Kristrún hefðu rætt saman og mælti hún með því við Höllu að formaður Samfylkingarinnar fengi stjórnarmyndurnarumboð.

„Samband okkar Kristrúnar er mjög gott, já. Við ætlum að reyna vonandi að mynda sterka og samhenta ríkisstjórn,“ sagði Þorgerður Katrín, að loknum fundi á Bessastöðum. Hún tók þó fram að ýmislegt ætti eftir að koma betur í ljós og nefndi að þær hefðu ekki rætt um nein stefnumál. „Ég sé þarna ákveðið mynstur af rík­is­stjórn­um sem hægt er að mynda.“

Á kosningauppgjöri Spursmála sem haldið var daginn eftir kjördag sagði Inga Sæland að auðvitað ættu sér stað margháttuð samtöl og símtöl milli forystumanna flokkanna, en bætti við að það væri allt „prívat“. Þorgerður Katrín var einnig gestur á kosningauppgjörinu. Báðar tóku þær undir að annað stjórnarmynstur kæmi vel til greina en Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins, eða svokölluð valkyrjustjórn. Þorgerður hnykkti þó á því að hún teldi ótímabært að ræða við Sjálfstæðisflokkinn og rakti það til ummæla Bjarna Benediktssonar formanns hans um Evrópumálin.

Óskað eftir endurtalningu

Yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi hefur borist ósk um endurtalningu atkvæða. Gestur Svavarsson formaður yfirkjörstjórnar staðfesti þetta. Lokatölur úr Suðvesturkjördæmi voru síðustu tölur sem bárust um hádegisbil á sunnudag. Örfá atkvæði til eða frá geta haft mikil áhrif á hina svokölluðu uppbótarhringekju. Yfirkjörstjórnin fundaði í gær um málið en þegar blaðið fór í prentun á tólfta tímanum í gærkvöldi lá ákvörðunin ekki fyrir.

Óska eftir leyfi

Morgunblaðið ræddi við embættismenn og sveitarstjórnarfólk sem voru um helgina kjörin á Alþingi og bar undir þau hvort þau myndu nýta þann rétt sem þau eiga samkvæmt lögum. Flestir munu óska eftir leyfi frá störfum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert