Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, er búin að veita Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, stjórnarmyndunarumboð.
Þær funduðu á Bessastöðum í morgun.
„Eftir það samtal þá hef ég falið Kristrúnu umboð til stjórnarmyndunar. Kristrún hefur líka tjáð mér að hún sé nú þegar í virku samtali við formenn annarra flokka, sem einnig hafa upplýst mig um að þeir séu reiðubúnir til formlegra viðræðna um myndun nýrrar ríkisstjórnar með Samfylkingunni,“ sagði Halla við fjölmiðla að loknum fundinum.
„Ég óska fulltrúum stjórnmálaflokkanna góðs gengis í þessum viðræðum og mun fylgjast áfram með þróun mála,“ bætti hún við.
Spurð hvort þetta hefði verið langskýrasti kosturinn í stöðunni sagði Halla að kosningaúrslitin hefðu verið skýr og að samtöl gærdagsins hefðu leitt í ljós að almennt hefði verið talið að þetta væri rétta skrefið.
„Við höfum ekki sett ákveðin tímamörk en ég held að það geri sér allir grein fyrir að allir vilja bretta upp ermar og vilja vinna hratt og ég mun fylgjast með málum og vona auðvitað að það gangi hratt og vel fyrir sig,“ sagði hún jafnframt.