Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, hefur boðað formenn Viðreisnar og Flokks fólksins, þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ingu Sæland, til samtals kl. 15.00 á Alþingi í dag.
Formennirnir hittast í fundarherbergi forsætisnefndar Alþingis.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samfylkingunni.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, veitti Kristrúnu stjórnarmyndunarumboð á Bessastöðum í dag.
Eftir fundinn með Höllu í morgun sagðist Kristrún vera bjartsýn um að flokkarnir þrír geti náð saman.
„Það er verulega mikill málefnalegur grundvöllur og samleið fyrir málefnunum í þessu samhengi. Auðvitað eru ólíkar áherslur, þess vegna erum við í sitthvorum flokkunum. En ég held að við ættum að geta náð saman um mörg stór og mikilvæg mál og það verður að ráðast á næstu dögum. Ég væri ekki að fara í þessa vegferð nema ég tryði því að ég gæti náð árangri,” sagði Kristrún.