Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að spara megi að minnsta kosti tvo milljarða í rekstri Reykjavíkurborgar á næsta ári. Hafa sjálfstæðismenn lagt fram 17 tillögur að breytingum við fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir 2025.
Í tilkynningu frá sjálfstæðismönnum í Reykjavík kemur fram að reksturinn þurfi að vera sjálfbær óháð því hvort Perlan seljist eða ekki.
„Með breytingatillögum okkar kynnum við raunhæfar en nauðsynlegar aðgerðir til að koma böndum á rekstur borgarinnar. Ef ekki væri fyrir arðgreiðslur úr Orkuveitunni, sölu byggingarréttar og sölu Perlunnar væri hallinn af rekstri borgarsjóðs 11,8 milljarðar króna. Það er óeðlilegt að láta grunnþjónustu borgarinnar hanga á slíkum stærðum,“ er haft eftir Hildi Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, í tilkynningunni.
„Hagræðingartillögur okkar byggja á þeirri grunnhugsun að reksturinn verði sjálfbær, óháð því hvort Perlan seljist eða ekki.“
Lagt er til ráðningarbann á miðlæga stjórnsýslu og ráðist verði í stjórnkerfisúttekt á borgarkerfinu. Standa á vörð um mikilvæga framlínuþjónustu á borð við grunnskóla, leikskóla og velferðarþjónustu.
Fresta ætti eða draga úr fjárfestingum sem nema 1.150 milljónum á næsta ári að mati sjálfstæðismanna.
Borgarfulltrúarnir leggja ekki einungis til að hagræða heldur eru þeir einnig með tillögur um auknar tekjur.
Aðgerðirnar snúa annars vegar að frekari sölu lóða undir íbúðar- og atvinnuhúsnæði í borginni.
„Lóðasalan sem slík mun skapa borginni auknar tekjur, en jafnframt sú fjölgun íbúa og fyrirtækja sem fylgja mun í kjölfarið. Það er ærið tilefni enda áætlar borgin að aðeins verði byggðar 1.000 íbúðir í Reykjavík á næsta ári, þrátt fyrir loforð um 2.000 íbúðir árlega, og þrátt fyrir gríðarlega húsnæðisþörf,“ er einnig haft eftir Hildi.
Þá er lagt til að selja bílastæðahús, malbikunarstöð og Ljósleiðarann.
„Við leggjum jafnframt til frekari eignasölu og að borgin dragi sig úr samkeppnisrekstri. Við viljum til að mynda selja bílastæðahús í eigu borgarinnar en verðmæti þeirra áætlum við gróflega um 12-16 milljarða. Við teljum einkaaðila geta staðið betur að þessum rekstri sem rekinn hefur verið með halla ár eftir ár. Jafnframt viljum við undirbúa sölu Malbikunarstöðvarinnar Höfða og Ljósleiðarans, enda ekki hlutverk borgarinnar að standa í slíkum samkeppnisrekstri. Eignasalan gæti skilað borginni 20 til 30 milljörðum sem verja mætti til niðurgreiðslu skulda og innviðafjárfestinga.“