Nýting sparnaðarins heldur sjálfkrafa áfram

Skatturinn heldur utan um úrræðið og er hægt að sækja …
Skatturinn heldur utan um úrræðið og er hægt að sækja um það á leidretting.is mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem eru með virka ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignalána munu ekki þurfa að sækja sérstaklega um áframhaldandi nýtingu úrræðisins heldur mun það halda sjálfkrafa áfram um áramótin nema tilkynnt sé sérstaklega um að einstaklingar hyggist hætta að nýta úrræðið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu, en í við þinglok í síðasta mánuði var ákveðið að framlengja heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignaláns vegna kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota sem og heimild til nýtingar á uppsöfnuðum séreignarsparnaði.

Þetta er breytt fyrirkomulag frá því sem áður hefur verið, en í fyrra þurftu þeir sem vildu áfram ráðstafa séreignarsparnaði inn á fasteignalán að endurnýja umsókn þar að lútandi.

Nær framlenging núna til eins árs, eða til og með 31. desember 2025.

Þeir sem vilja nýta sér úrræðið geta sótt um það á leidretting.is.

Viðmiðunarfjárhæðir heimildanna verða áfram þær sömu. Í báðum tilvikum getur árleg hámarksfjárhæð einstaklings því numið samtals 500 þúsund. á almanaksári. Hjá hjónum og einstaklingum, sem uppfylla skilyrði til samsköttunar, takmarkast heimildin við að hámarki samanlagt 750 þúsund á almanaksári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert