„Þarna er verið að bregðast við vegna stöðunnar á Stuðlum, það er verið að færa starfsemi meðferðardeildar Stuðla og þess vegna er ekki um nýtt úrræði að ræða, en við fögnum þessu auðvitað,“ segir Salvör Nordal umboðsmaður barna í samtali við mbl.is um nýja meðferðarheimilið Blönduhlíð í Mosfellsbæ þar sem meint opnun átti sér stað á þriðjudaginn var, 26. nóvember.
Sagði Vísir í kjölfarið af því að foreldrar barna og ungmenna sem eiga börn sem þurfa að komast í meðferð hefðu látið í sér heyra með þær fregnir að um eins konar sýndaropnun Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra barnamála hefði verið að ræða. Blönduhlíð hefði alls ekki opnað enda engin leyfi fyrir starfseminni enn fyrir hendi og húsnæðið enn óvottað hvað brunavarnir og öryggismál snerti. Blönduhlíð hefur því ekki opnað dyr sínar.
„Eftir því sem við höfum heyrt frá Barna- og fjölskyldustofu er gert ráð fyrir að starfsemi hefjist í Blönduhlíð um miðjan desember, þegar öll leyfi liggja fyrir,“ heldur Salvör áfram.
„Þetta er gamalt húsnæði sem er verið að útbúa fyrir börn sem hafa verið í meðferð á Stuðlum og mætir eingöngu hluta þess vanda sem er fyrir hendi. Hópurinn sem hefur verið á Stuðlum er fjölbreyttur og það er mikilvægt að geta aðgreint hann í meðferð, bæði út frá vanda barnanna, aldri og kyni,“ segir umboðsmaður og skýrir mál sitt enn frekar.
„Þá er mikilvægt að húsnæðið henti fyrir starfsemi sem þessa og að hægt sé að tryggja öryggi barnanna og starfsfólksins. Að mínu mati blasir við neyðarástand í þessum málaflokki,“ segir Salvör alvarleg í bragði. „Það hefur lengi staðið til að byggja sérstakt úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda en það hefur dregist úr hófi að það verði að veruleika,“ segir hún enn fremur.
Í framhaldinu kveður Salvör mjög brýnt að að ráðist verði í byggingu þess úrræðis sem allra fyrst. „Fangageymslur lögreglustöðvarinnar í Flatahrauni hafa verið notaðar undanfarið til þess að taka á móti börnum í neyðarvistun. Það er með öllu óviðunandi að börn séu vistuð þar eins og kom fram í bréfi embættis umboðsmanns barna til ráðuneytisins,“ tekur hún fram, en mbl.is greindi frá bréfinu á sínum tíma. Svar hefur ekki borist.
„Það mun auðvitað taka einhvern tíma að byggja upp ný úrræði og koma málum í viðunandi horf og það er brýnt að ný ríkisstjórn setji þennan málaflokk í forgang. Okkur ber skylda til að mæta vanda þessara barna með fullnægjandi hætti,“ lýkur Salvör Nordal máli sínu.
„Það sem við tilkynntum, Barna- og fjölskyldustofa, var að móttökustarfsmenn barnaverndarþjónustu skyldu kynna sér húsnæðið svo þau sæju hvað þau væru að fara að senda börnin í, hvernig þetta liti út og hvernig þetta væri. Það gerðum við til þess að þau hefðu tækifæri til að sjá þetta. Við tilkynntum aldrei neina opnun, Barna- og fjölskyldustofa gerði það ekki,“ segir Funi Sigurðsson, framkvæmdarstjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, við mbl.is er hann var spurður út í stöðu málsins.
„Já já, ég get alveg sagt þér hver staðan er á málinu. Við erum bara að bíða eftir því að það sé hægt að fara í brunaúttekt og gefa okkur starfsleyfi. Til þess að það sé hægt þurfa allar teikningar að vera klárar, þetta er bara eðlilegt ferli þegar við erum að opna svona [meðferðarstöðvar],“ svarar Funi og lætur þess aukinheldur getið að stíga þurfi varlega til jarðar eftir undangengna atburði.
„Við förum af stað um leið og við höfum öll tilskilin leyfi og allt er í lagi. Byggingarfulltrúi þarf að samþykkja breytingar á húsinu, svo höfum við sótt um starfsleyfi, taka þarf út starfsemina og svo þarf slökkviliðið að fara yfir að allt sé í lagi með brunavarnir og þá getum við byrjað,“ segir framkvæmdastjóri meðferðarsviðs.
Stendur Barna- og fjölskyldustofa á bak við opnun þessara meðferðarheimila almennt?
„Já, Barna- og fjölskyldustofa opnar þetta heimili út frá fjárveitingum frá mennta- og barnamálaráðuneytinu. Við munum reka þetta heimili í framtíðinni,“ svarar Funi og segir aðspurður að frumkvæðið að opnun meðferðarheimilanna sé blandað.
„Ég, ásamt fleirum, hef farið fyrir þingmannanefnd til þess að tala fyrir því að við þyrftum að bæta við flóruna og það gerðist fyrir dálítið löngu síðan. Svo fengum við grænt ljós frá okkar ráðuneyti sem hefur stutt okkur í því að fara í þessar framkvæmdir. Við sem undirstofnun þurfum að upplýsa okkar ráðuneyti um hvar skórinn kreppir,“ útskýrir Funi.
Spjót fjármagnsins kveður hann hins vegar hafa staðið á fjármálaráðuneytinu, ferlið hefur verið þannig og það eru nokkuð margir mánuðir síðan við vorum að ávarpa þann vanda sem var að birtast okkur með því að fleiri börn væru að koma inn í gæsluvarðhald og afplánun og það tengist þessari umræðu,“ heldur hann áfram.
Telur Funi mikilvægt að fram komi að ekki standi til að vista vörn í Blönduhlíð út frá gæsluvarðhaldi eða afplánun. „Við erum að rýmka til á Stuðlum til þess að hafa pláss þar fyrir börnin sem þurfa á gæsluvarðhaldi eða afplánun að halda. Um þetta gætir misskilnings, ég las einhvern hasar um það á öðrum miðli um að við værum að fara að vista börn í afplánun og gæsluvarðhaldi í Mosfellsbæ en það er alls ekki ætlunin, við ætlum okkur að búa til aðstæður fyrir okkur svo við getum sett börn með álíka vanda saman á einn stað og séum ekki að blanda öllu saman á einn stað,“ segir Funi Sigurðsson, framkvæmdarstjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, að lokum um Blönduhlíðarmálið.