Skæð fuglaflensa staðfest í Ölfusi

Aflífa þarf um 1.300 fugla.
Aflífa þarf um 1.300 fugla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fuglainflúensa hefur verið staðfest í kalkúnum á búinu Auðsholti í Ölfusi eftir að fuglar þaðan voru sendir til rannsóknar á tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að Bjarni Benediktsson matvælaráðherra hafi fyrirskipað tafarlausan niðurskurð á fuglunum á grundvelli dýravelferðar og til að lágmarka smitdreifingu.

Undirbúningur fyrir aflífun fuglanna er hafinn og ráðstafanir hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Um er að ræða skæða fuglainflúensu af gerðinni H5N5. Óljóst er um uppruna smitsins en um er að ræða sömu gerð veirunnar og hefur greinst í villtum fuglum í haust og er því líklegt að smitið hafi borist frá þeim.

Á annað þúsund fugla

Um 1.300 fuglar eru í umræddu húsi og takmörkunarsvæði hefur verið skilgreint umhverfis búið. Bann hefur verið sett við flutningi fugla á svæðinu og annars sem getur borið út smit.

Jafnframt hefur starfsfólki á svæðinu verið gefin fyrirmæli um að vera vakandi fyrir sjúkdómseinkennum í fuglum á búunum og tilkynna til Matvælastofnunar ef grunur vaknar.

Aðrir fuglaeigendur eru beðnir um að vera jafnframt vel á verði og hafa samband við Matvælastofnun í síma 861 7419 án tafar ef þeir verða varir við einkenni sem geta bent til fuglainflúensu.

Fuglainflúensa getur mögulega smitað fólk sem er í náinni snertingu við veika fugla. Ekki er vitað um smit í fólki með þessa tegund veirunnar.

Engin hætta stafar af neyslu afurða og því ekki þörf á innköllun á kalkúnakjöti sem er á markaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert