„Ég tek við góðu búi, þetta er geysilega öflugt félag og rosalega kröftug skrifstofa,“ segir Halla Gunnarsdóttir sem tók við sem formaður VR í dag, þegar Ragnar Þór Ingólfsson lét formlega af störfum eftir að hafa verið kjörinn á þing fyrir Flokk fólksins.
Halla hefur verið varaformaður VR í tæp tvö ár og því starfað við hlið Ragnars Þórs í þeim verkefnum sem áhersla hefur verið á innan félagsins. Hún hefur verið starfandi formaður VR síðasta mánuðinn, eða frá því Ragnar Þór fór í framboð til Alþingis.
„Ragnar þór er búinn að vera hérna lengi og hefur sett mark sitt á þetta starf. Hluti af þeim verkefnum sem ég tek við núna eru þær áherslur sem hann hefur sett og þá horfi ég sérstaklega á húsnæðismálin. Þar er auðvitað búið að byggja upp íbúðafélagið Blæ og fyrstu íbúðirnar verða afhentar núna í janúar,“ segir Halla.
Einnig verði þeim kjarasamningum sem undirritaðir voru í mars fylgt eftir, sem og skuldbindingum stjórnvalda.
„Síðan varðandi það sem við höfum verið að gera síðustu vikur, þá höfum við verið að setja mikinn fókus á niðurskurðarpólitík. Við munum fylgja því mjög kröftuglega eftir núna þegar við fylgjumst með stjórnarmyndunarviðræðum og nýju þingi fóta sig af stað,“ segir Halla
„Það er algjörlega skýr krafa okkar í VR að launafólk verði ekki látið halda áfram að taka allar byrðarnar af efnahagsástandinu,“ bætir hún.
Halla telur mikinn styrk fólginn í því fyrir VR að Ragnar Þór sé kominn á þing og að hans flokkur, Flokkur fólksins, sé hugsanlega á leið í ríkisstjórn.
„Það er mikill styrkur að hafa fólk sem hefur reynslu úr verkalýðshreyfingunni inni á þingi.“
Þá ber Halla væntingar til þess að ný stjórnvöld takist á við þann veruleika sem blasi við í landinu. Mikilvægt sé að ná stjórn á húsnæðismálunum.
„Kosningabaráttan hefur einkennst alltof mikið af einhverju tali um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum, en það sem þarf auðvitað að gera er að ná stjórn á húsnæðismálum í landinu. Það þarf að koma til móts við þessa hópa sem hafa verið að taka á sig mjög þungar byrðar út af hávaxtastefnunni. Það finnst mér vera stóru verkefnin. Svo hefur maður auðvitað áhyggjur af ásælni einkaaðila í ríkissjóð,“ segir Halla.
Hún vonast til að þessi mál verði efst á blaði í þeim stjórnarmyndundarviðræðum sem framundan eru hjá Samfylkingunni, Viðreisn og Flokki fólksins.
Halla mun gegna formennsku í VR út kjörtímabilið sem lýkur á aðalfundi félagsins í mars á næsta ári. En hún hyggst svo gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku.