Veðurstofa Íslands vekur athygli á snjóflóðahættu til fjalla á vef sínum.
Tekið er fram að ekki sé um snjóflóðahættu í byggð að ræða.
Á suðvesturhorninu er snjóflóðahætta til fjalla á morgun, miðvikudag, metin töluverð sem er millistig í töflunni á vef Veðurstofunnar. Þar fyrir ofan er mikil hætta og mjög mikil hætta. Í dag var hún metin nokkur.
„Forðast mætti staði eins og stíginn ofan Steins á Esjunni vegna aukinnar snjóflóðahættu,“ segir meðal annars í færslu á vefnum.
Engar tilkynningar hafa borist um snjóflóð en ástæða þess að varað er við hættu er sögð vera slæm binding milli nýs snævar og undirlags sem var frosið fyrir.
Á Austfjörðum er enn töluverð hætta eins og fjallað hefur verið um en þar er átt við mjög stórt svæði og ekki endilega í byggð. „Spáin er einkum gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og tekur bæði til snjóflóða af mannavöldum og veðurtengdra snjóflóða,“ segir Veðurstofan.