„Við bara reynum að þrýsta þessu fram“

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir nú reynt að skipuleggja í hvaða …
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir nú reynt að skipuleggja í hvaða röð mál verði tekin fyrir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir viðræður kennara, ríkis og sveitarfélaga, fara rólega af stað, eftir að deiluaðilar gerðu með sér samkomulag á föstudag um hvernig ætti að standa að gerð kjarasamnings og frestun verkfalla kennara.

„Þetta fer rólega af stað. Við erum voða róleg, kannski aðeins of róleg fyrir fólk eins og mig. En við erum á „tracki“,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is. Samninganefndirnar hittust í gær og í dag og munu væntanlega funda stíft næstu vikurnar.

„Við erum að reyna að skipuleggja þetta og átta okkur á í hvaða röð við gerum þetta. Hvað það er sem við þurfum að takast á við. Við erum að feta okkur inn í það,“ útskýrir hann. Verið sé að brjóta samtalið upp og setja fólk í hópa.

Verkföllum frestað um tvo mánuði

Á föstudaginn skrifuðu samninganefndir Kennarasambands Íslands, ríkis og sveitarfélaga undir svokallað rammasamkomulag um það hvernig skuli staðið að frágangi kjarasamnings við Kennarasambandið og vegferðina að samningnum, eins og Ástráður orðaði það í samtali við mbl.is.

Á sama tíma var gert samkomulag um að fresta verkföllum kennara um tvo mánuði, eða út janúar á næsta ári. En verkfallsaðgerðir hefjast aftur þann 1. febrúar náist samningar ekki fyrir þann tíma.

Vissir þættir komnir í farveg

Vegna samkomulagsins á föstudag eru ákveðnir þættir í kjaraviðræðunum komnir í farveg. Tryggt hefur verið að á árinu 2025 verði tekið skref í átt að jöfnun launa á milli markaða og launatöfluaukar hafa jafnframt verið fastsettir sem þýðir að kennarar muni fylgja launahækkunum á almennum markaði.

„Það eru vissir þættir sem eru komnir í einhvern farveg, sem gerir okkur vonandi kleift að einangra betur þau úrlausnarefni sem við þurfum að takast á við,“ segir Ástráður. Enginn skortur sé þó á flóknum úrlausnarefnum og erfiðum atriðum sem þurfi að komast í gegnum.

Hann segist þó hafa fulla trú á að deiluaðilar nái samkomulagi um nýjan kjarasamning fyrir janúarlok.

„Ég er bjartsýnn og við bara reynum að þrýsta þessu fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert