„Fundurinn í dag var mjög góður og við áttuðum okkur á að það eru mjög margir fletir sem hægt er að sammælast um,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Hún segir að næstu tveir til þrír dagar muni gefa betri mynd af því hvort samstarf Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins sé mögulegt.
Hún segir að stór viðfangsefni blasi nú við og að formennirnir þurfi að ná ákveðnum ramma og lendingu í þeim málum.
Þá kveðst hún fyrst og síðast hugsa um efnahagsmálin.
„Við lögðum mikla áherslu á að ná niður verðbólgu og vöxtum, sýna aðhald í ríkisrekstri, skoða og velta öllum hlutum við hvort sem það er í opinberum innkaupum eða fjárstýringu ríkisins. Það skiptir okkur mjög miklu máli.“
Þorgerður segir að fyrsti fundurinn hafi verið góður til að meta hvort hópurinn geti haldið áfram samræðum sínum af heilindum og einlægni og með ákveðin markmið og metnað í huga.
„Svarið við því er já. Ég segi það núna, já ekki spurning. Þannig að ég bara hlakka til fundarins á morgun.“
Aðspurð segir hún að samtal um Evrópumálin hafi ekki byrjað í dag. Spjallið hafi verið almennt.
Þá þyki henni gott að hafa náð að ræða fækkun ráðuneyta sem formennirnir þrír séu sammála um. Ekki sé þó búið að taka neinar ákvarðanir í sambandi við það.
„Nú ætlum við að fara að afla upplýsinga, fá töluleg gögn og það sem mér fannst líka gott að finna var hvað við vorum algjörlega sammála um það að vera með þessi gögn fyrir framan okkur, fara í ákveðnar skýrslur, lesa, vinna og svo framvegis.“
Þá segir Þorgerður að það sé margt sem veit á gott í samskiptum formannanna og að næstu tveir til þrír dagar muni gefa betri mynd af hugsanlegu samstarfi þeirra á milli.
Nú hefur verið talað um Valkyrjustjórnina, hvernig líst þér á þetta nafn?
„Erum við að tala um Urði, Verðandi og Skuld? Já, já, það er alveg sjarmi í þessu,“ segir Þorgerður og heldur áfram:
„Það verður að vera einhver léttleiki í þessu og við verðum að hafa húmor fyrir sjálfum okkur. Ég held að húmor skili okkur langt. Hann skilaði okkur í Viðreisn mjög langt og um leið og við erum mjög meðvituð um verkefnin sem fram undan eru þá er líka gott að hafa einhvern léttleika samhliða því.“
Eins og komið hefur fram munu formennirnir funda aftur saman á morgun en ekki hefur verið ákveðið klukkan hvað né hvenær og segir Þorgerður að það verði skoðað í kvöld eða fyrramálið.
Spurð hvort hún sé vongóð um að formennirnir geti fundað áfram næstu daga án vandkvæða segir Þorgerður að það sé ætlunin og að það sé komið plan.
„Það er áætlun um það hvernig við ætlum að haga þessu næstu daga þannig það er kominn ákveðinn rammi.“