Vilja niðurfellingu opinberra gjalda

Slysavarnarfélagið Landsbjörg hefur ítrekað óskað eftir því að samtökin fái niðurfelld opinber gjöld. Ríkisvaldið sem reiðir sig mjög á þetta víðfeðma sjálfboðaliðastarf hefur ekki orðið við þeirri beiðni. Vissulega hafa verið tekin skref í þá átt en Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, formaður samtakanna telur að gera þurfi betur. Fjóla er gestur Dagmála í dag ásamt upplýsingafulltrúa Landsbjargar sem er Jón Þór Víglundsson.

Þau benda á að viðlíka ívilnanir séu víða í nágrannalöndum þegar um sé að ræða sjálfboðaliðastarf sem lúti að almannaheill. Þetta er mikilvægt baráttumál Landsbjargar þegar kemur að rekstrarskilyrðum björgunarsveitanna. Fjóla segir stórt skref hafa verið stigið þegar virðisaukaskattur af bensíni var felldur niður og sömuleiðis niðurfelling á vörugjöldum. „Það sem er samt eftir er allur almennur rekstrarkostnaður sveitanna. Þar skilum við virðisauka,“ segir hún. „Það er enn töluvert langt í land og þetta getur verið mjög þungur baggi fyrir sveitir sem þurfa til dæmis að endurnýja húsnæði sitt eða þurfa að fara í stórar viðgerðir á tækjunum sínum. Þetta væri eitthvað sem myndi skipta okkur alveg ótrúlega miklu máli.“

Þessi beiðni er til staðar í fjármálaráðuneytinu og verður ítrekuð við nýjan fjármálaráðherra þegar ljóst verður hver tekur við því embætti.

Fjóla segist hafa heyrt ýmsar afsakanir fyrir því að ekki sé hægt að verða við þessari beiðni Landsbjargar. Henni finnst þetta vera „no brainer“ eða auðvitað. Sérstaklega þegar horft er til þess að Slysavarnarfélagið Landsbjörg eru samtök sjálfboðaliða í hópi viðbragðsaðila. „Það hafa oft verið jákvæð svör og margir sem vilja allt fyrir okkur gera en við viljum líka sjá það gerast,“ segir Fjóla í þættinum.

Jón Þór Víglundsson telur rétt í þessu samhengi að horfa til stóru myndarinnar. Ef íslenska ríkið ætlaði sjálft að kosta þann þátt sem Landsbjörg annast sem er viðbragðsgetan sem fólgin er í sjálfboðaliðum félagsins „þá þyrfti að kosta til ansi mörgum tugum milljarða. Þetta sem er verið að fara fram á hér eru smáaurar í því samhengi,“ sagði Jón Þór.

Vilja ekki fara á fjárlög

Fjóla segir Landsbjörgu ekki vilja fara á fjárlög. Bæði nefnir hún að það geti verið ótryggt umhverfi frá ári til árs, að reiða sig á slíka fjármögnun. „Við viljum halda okkar rekstrarlega sjálfstæði. Við höfum búið við velvild almennings í gegnum tíðina og það er svolítið okkar sérkenni,“ bætir Fjóla við. 

Sá hluti viðtalsins sem fylgir með fréttinni snýr að þessari umræðu, þar sem Fjóla og Jón Þór ræða þessa ósk Landsbjargar. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

Leiðrétting

Í Morgunblaði dagsins, þar sem greint er frá innihaldi þáttarins, eins og venja er, féll niður eitt orð í undirfyrirsögn. Undirfyrirsögnin er „Landsbjörg fari á fjárlög,“ þar féll út orðið ekki. Rétt er undirfyrirsögnin, Landsbjörg fari ekki á fjárlög. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert