Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni, mun tímabundið sinna starfsskyldum sem áður féllu undir Grím Grímsson, á miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Grímur er flestum landsmönnum kunnur en hann hefur gjarnan verið í forsvari fyrir lögregluna þegar alvarleg mál eru til rannsóknar.
Hann datt inn á þing með seinni skipunum á kosninganótt fyrir hönd Viðreisnar og verður því í þingstörfum næstu fjögur árin ef að líkum lætur.
Grímur fór fyrir rannsóknardeildinni en þar undir er einnig stoðdeild, sem sér um ýmis tæknileg mál. Henni mun Theodór Kristjánsson stýra þar til nýr yfirmaður verður ráðinn í stað Gríms.
Að sögn Gunnars Rúnars Sveinbjörnssonar, upplýsingafulltrúa lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, verður starfið sem Grímur sinnti áður auglýst innan skamms.