Eldur kom upp í þvottavél í íbúð í Smárahverfi í Kópavogi nú í kvöld. Vel gekk að slökkva eldinn og voru tvö slökkvitæki notuð.
Þetta segir Bjarni Ingimarsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Bjarni segir að enginn hafi verið heima þegar eldurinn kom upp og slasaðist því enginn. Það varð þó talsvert tjón á þvottaherberginu og var sót um alla íbúð.