Fuglar drápust mjög hratt eftir að einkenni komu fram

Fara þurfti í niðurskurð á um 1.300 kalkúnum í gærkvöldi.
Fara þurfti í niðurskurð á um 1.300 kalkúnum í gærkvöldi.

Búið er að skera niður kalkúnastofn á bænum Auðsholti í Ölfusi eftir að fuglaflensusmit kom upp í búinu. Í heild þurfti að aflífa 1.300 kalkúna, en Matvælastofnun (MAST) hefur einnig afmarkað um tíu kílómetra svæði sem er metið áhættusvæði, eða „skilgreint takmörkunarsvæði“ hvað smit varðar.

„Það var farið í aflífun strax í gær og það gekk vel,“ segir Þóra Jónasdóttir yfirdýralæknir hjá MAST. Fundað var með alifuglabændum í dag þar sem farið var yfir stöðuna.

Hún segir að einhver fjöldi af fuglum hafi drepist áður en ráðist var í niðurskurðinn. 

„Fuglarnir drápust mjög hratt eftir að þeir fengu einkenni. Það byrjuðu að drepast fuglar í fyrradag og svo fleiri í gær, sem setti allt viðbragð í gang. Aflífun á öllum fuglum í húsinu fór fram í gærkvöldi,“ segir Þóra.

Smit í villtum fuglum 

Að sögn Þóru er ekki nákvæmlega vitað hvernig smit barst í búið en sama afbrigði, H5N5, hefur greinst í villtum fuglum í haust víða um land, norðan-, austan og sunnanlands, sem og á höfuðborgarsvæðinu.

„Við teljum að smitið hafi með einhverjum hætti borist inn í húsið. Hvernig það gerðist vitum við ekki,“ segir Þóra.

Þóra Jóhanna Jónasdóttir, yfirdýralæknir hjá Mast.
Þóra Jóhanna Jónasdóttir, yfirdýralæknir hjá Mast. Ljósmynd/Aðsend

Skera ekki niður fugla í öðrum húsum 

Í Auðsholti eru tvö önnur kalkúnahús. Ákveðið hefur verið að skera ekki niður fugla í öðrum húsum en þar sem fulgar sýna einkenni veikinda.

„Það fer ekkert á milli mála þegar þessi veira kemur í hús. Það er því mjög ítarleg vöktun þar sem fylgst er með líðan þeirra fugla. Svo er auðvitað hugað að góðum sóttvörnum líkt og alltaf þegar um alifuglabú er að ræða, því smithættan er í umhverfinu. Við munum alla vega til að byrja með eingöngu aflífa fugla í húsum þar sem er farið að bera á einkennum veikinda. Það er hins vegar faraldsfræðilegur samgangur í önnur hús, þannig að þau hús eru undir sérstöku eftirliti,“ segir Þóra.

Að sögn hennar felst hinn faraldsfræðilegi samgangur í því að sami umönnunaraðili fór á milli húsanna. Enginn flutningur er á fuglum á milli búa.

„Það standa vonir til þess að sóttvarnir haldi og það berist ekki smit á milli húsa en áhættan er alltaf til staðar því sami bústjóri hefur komið í fleiri hús,“ segir Þóra.

Afbrigðið borist á milli dýrategunda 

Innan metins áhættusvæðis eru önnur kjúklinga- og kalkúnabú. Þóra segist ekki hafa nákvæma tölu hve margir fuglar eru á því tíu kílómetra svæði sem um ræðir.

Dæmi eru um að þetta afbrigði veirunnar hafi borist í refi í Noregi og Kanada og skógarmörð í Hollandi. Hins vegar eru engin dæmu um að afbrigðið hafi borist í mannfólk. Bændur eru að sögn Þóru afar meðvitaðir um sóttvarnir í ljósi slíkra fordæma og menn almennt á tánum gagnvart þessum vágesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert