Höfðu betur í bjórdeilu gegn ríkinu í Hæstarétti

Áfengisinnflytjandinn Dista hafði betur gegn ÁTVR í deilunni.
Áfengisinnflytjandinn Dista hafði betur gegn ÁTVR í deilunni. Ljósmynd/Colourbox

Áfengisinnflytjandi hafði betur í Hæstarétti nú rétt í þessu gegn Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins í bjórdeilu sem hefur farið í gegnum allt dómskerfið.

Felld var úr gildi ákvörðun ÁTVR um að taka úr sölu vörutegundir innflytjandans. Jafnframt þarf ÁTVR að greiða málskostnað á öllum dómstigum. 

Ósátt við að fá ekki að selja tvær bjórtegundir 

Heild­versl­un­in Dista ehf. höfðaði mál á hend­ur ÁTVR (íslenska ríkinu) í júní 2021 og krafðist ógild­ing­ar á tveim­ur ákvörðunum ÁTVR um að fella tvær bjór­teg­und­ir úr vöru­úr­vali þeirra og hætta inn­kaup­um þeirra þar sem þær hefðu ekki náð ákveðnu viðmiði um fram­legð.

Byggði Dista á því að ÁTVR hefði verið óheim­ilt að byggja ákvörðun­ar­töku sína á fram­legð þar sem það viðmið ætti ekki stoð í lög­um um versl­un með áfengi og tób­ak, held­ur bæri við ákv­arðanir þar um að miða við eft­ir­spurn kaup­enda, sem vísað væri til í 5. mgr. 11. gr. laga um versl­un með áfengi og tób­ak sem réðist af sölu­magni hlutaðeig­andi vöru.

Í júní 2022 felldi Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur úr gildi ákv­arðanir ÁTVR á þeim for­send­um að þær hafi brotið í bága við 1. mgr. 75. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar og lög­mæt­is­reglu ís­lensks rétt­ar.

Landsréttur var á öðru máli

Landsréttur var hins vegar á öðru máli. Taldi rétturinn að samkvæmt fyrr­nefndu ákvæði skyldi ráðherra setja nán­ari regl­ur um vöru­val, inn­kaup og dreif­ingu ÁTVR á áfengi, sem skyldu miða að því að tryggja vöru­úr­val m.a. með hliðsjón af eft­ir­spurn kaup­enda, jafn­framt því að tryggja fram­leiðend­um og birgj­um áfeng­is mögu­leika á að koma vör­um í sölu í áfeng­is­versl­un­um.

Að virtri breyt­ing­ar­sögu ákvæðis­ins varð ekki ráðið að ætl­un lög­gjaf­ans hefði verið að hrófla við þeirri ára­löngu til­hög­un að miða ár­ang­ur­s­viðmið um vöru­val við fram­legð.

Þá var fall­ist á með ÁTVR að viðmið um fram­legð end­ur­speglaði eft­ir­spurn og væri bet­ur til þess fallið að tryggja vöru­úr­val í versl­un­um ÁTVR og sölu­mögu­leika birgja. Var ein­sýnt að mati rétt­ar­ins að þau sjón­ar­mið sem lágu til grund­vall­ar fram­legðarviðmiði teld­ust mál­efna­leg og í sam­ræmi við mark­mið áfeng­islaga um að ÁTVR skyldi starfa með sam­fé­lags­lega ábyrgð og lýðheilsu að leiðarljósi.

Var því niðurstaða Lands­rétt­ar að fram­legðarviðmiðið ætti sér full­nægj­andi laga­stoð.

Þá var ekki fall­ist á með Dista að ÁTVR hefði brotið gegn and­mæla­reglu stjórn­sýslu­rétt­ar, en ljóst þótti að Dista var kunn­ugt um þau viðmið sem réðu vöru­vali ÁTVR og að afstaða inn­flytj­and­ans til þeirra lá fyr­ir. Var því óþarft að gefa Dista kost á að tjá sig um efni máls­ins.

Loks var hafnað máls­ástæðum Dista um valdþurrð þess starfs­manns ÁTVR sem tók hinar umþrættu ákv­arðanir og um brot á öðrum meg­in­regl­um stjórn­sýslu­laga.

Var ÁTVR því sýknað af kröf­um Dista í Landsrétti.

Sem fyrr segir var niðurstaða Hæstaréttar að snúa við dómi Landsréttar og dæmdi Hæstiréttur Dista í vil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert