Sigurgeir Svanbergsson sá til þess með sjósundi í vetrarkulda að 1,1 milljón króna rann til Píeta samtakanna.
Sigurgeir sem kemur frá Eskifirði synti tæpa 7,5 kílómetra í köldum sjó frá Reyðarfirði til Eskifjarðar hinn 3. nóvember til styrktar Píeta samtökunum. Var þetta í sjöunda sinn sem Sigurgeir syndir krefjandi sund til að safna fyrir áheitum fyrir málsstað sem honum er hugleikinn.
Austurfrétt hafði samband við samtökin og fékk þær upplýsingar að 1,1 milljón króna hefði skilað sér til Píeta vegna afreks Sigurgeirs.
„Ég fór í sjúkrabíl beint eftir þetta og þá var líkamshitinn kominn niður í 31 gráðu. Á þessum tímapunkti líður yfir fólk, þannig að það þurfti að hita mig upp rólega til að byrja með,“ sagði Sigurgeir meðal annars í viðtali við K100 eftir sundið.
Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.