„Þær kjósa feigð á menn og ráða sigri“

Kristrún Frostadóttir, Inga Sæland og Þorgeður Katrín Gunnaarsdóttir hafa hafið …
Kristrún Frostadóttir, Inga Sæland og Þorgeður Katrín Gunnaarsdóttir hafa hafið viðræður um myndun svokallaðrar valkyrjustjórnar mbl.is/Eyþór Árnason

Valkyrja er orð sem hefur verið notað oft undanfarna sólarhringa í kjölfar þess að þrír kvenkyns formenn stjórnmálaflokka hófu viðræður um ríkisstjórnarmyndun.

Möguleg ríkisstjórn hefur verið kölluð „valkyrjustjórn“ og fyrirsögnin á forsíðu Morgunblaðsins í dag er: „Valkyrjur ræða stjórnarsamstarf.“

Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, ræddi við mbl.is um hvað orðið táknar.

Orðið að einhverju leyti viðeigandi

Hún segir að í nútímanum sé orðið valkyrja notað á jákvæðan hátt til að tákna konu sem sýnir styrkleika, öryggi og hæfni til þess að geta tekið ákvarðanir.

„En í bakgrunni er þessi forna hugmynd um að valkyrjurnar höfðu þessa ákvörðunarhæfni til að ákvarða hverjir ynnu og hverjir myndu þá tapa eða falla.

Það er kannski að einhverju leyti svolítið viðeigandi að þú sért með þrjár konur í fararbroddi sem eru að einhverju leyti að ákveða hverjir munu falla og hverjir munu leiða,“ segir Sif.

Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, standa nú í ströngu við að mynda nýja ríkisstjórn í kjölfar kosninga.

Sagði Inga í gær að loknum fundi þeirra, þegar tekin hafði verið ákvörðun um að hefja viðræður um stjórnarsamstarf, að „val­kyrj­urn­ar eru komn­ar til að sjá og sigra.“

Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Forníslenskt og kemur fyrir í fornsögum

Orðið valkyrja kemur úr norrænni goðafræði og lýsti oftast vígbúnum meyjum sem ákváðu örlög stríðsmanna á vígvellinum og fluttu þá föllnu til Valhallar.

Orðið er forníslenskt og kemur fyrir í mörgum gömlum textum eins og Völuspá, Snorra-Eddu og Brennu-Njáls sögu.

Í Grímnismálum, sem varðveitt eru í Sæmundareddu, segir um valkyrjurnar:

„Þær kjósa feigð á menn og ráða sigri.“

Flytja fallna bardagamenn til Valhallar

Sif segir að orðið sé samsett úr orðinu „val“, sem þýðir þeir sem falla í bardaga, og „kyrja“ sem merkir það sama og að kjósa. Valkyrjur kjósa því örlög manna í bardögum.

„Í sumum textum eru þær að þjóna til borðs í Valhöll og er þá oft talað um meyjar Óðins, en langalgengasta myndin af þeim er í raun að þær kjósa örlög manna – þær velja hverjir vinna og hverjir falla í bardögum og bera þá hina föllnu bardagamenn með sér aftur til Valhallar.“

Valkyrjur flytja fallna bardagamenn til Valhallar. Þó ekki til Valhallar …
Valkyrjur flytja fallna bardagamenn til Valhallar. Þó ekki til Valhallar á Háaleitisbraut 1, hvar Sjálfstæðisflokkurinn er til húsa. mbl.is/Kristinn

Jákvætt orð með dularfullum undirtón

Sif tekur orðanotkuninni fagnandi og segir gott að leita í fortíðina til að endurvekja orð og hugmyndir til að yfirfæra á nútímann. En hvenær á þetta orð við í nútímasamhengi?

„Ég myndi halda að það væri almennt jákvætt og væri skilið jákvætt. Lýsir því í raun sterkri og öflugri konu sem er í þeirri aðstöðu að geta tekið ákvarðanir um hluti og leitt. Kvenleiðtogahlutverk, en kannski með þessum dularfulla undirtón,“ segir Sif.

Hún segir að valkyrjur hafi verið vinsælt myndmál í gegnum tíðina og þær birtist til að mynda í óperu Wagners – Hringurinn. Þar birtast valkyrjur í brynjum, ríðandi á hestum eða fljúgandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert