Sælgæti frá Nóa Síríus hækkar verulega í verði á milli ára eða um 24% í Bónus og um 22% í Krónunni.
Þetta kemur fram í niðurstöðum verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands (ASÍ).
Þar segir að Nói Síríus skeri sig úr þegar breytingar á verði eftir framleiðendum í Krónunni og Bónus eru skoðaðar. Verð á vörum frá Freyju, Góu og Lindu hækka mun minna eða um 7 til 10%.
Matvörubúðin Iceland sker sig úr í hækkun verðlags á milli ára. Frá nóvember í fyrra til nóvember í ár hefur verðlag í Iceland hækkað um 10%.
Þetta er mun meira en í öðrum matvöruverslunum.
Verðlag hefur hækkað um 4% í Bónus og 2,2% í Krónunni á milli ára.
Að meðaltali hafa vörur í Nettó hækkað um 0,4% þegar ekki er vegið eftir mikilvægi vöruflokka. Vörur sem fást einnig í Bónus hafa lækkað um 4% í verði á milli ára en vörur sem er ekki að fá í Bónus hafa hækkað um 2% að meðaltali.
Af þeim vöruflokkum sem voru til skoðunar hjá verðlagseftirlitinu voru það kartöflur sem hækkuðu mest í verði hjá Bónus og Krónunni. Þrír vöruflokkar lækkuðu í verði, þar á meðal egg.
Síðustu mánuði hefur verið umræða um eggjaskort á landinu og því áhugavert að varan lækki í verði.