Miklar breytingar hafa orðið á skipan Alþingis í undanförnum þingkosningum, en frá og með kosningunum 2009 hefur 161 nýr þingmaður tekið sæti á Alþingi.
Flestir nýir þingmenn hlutu kjör í nýafstöðnum kosningum, en þeir voru 33 talsins sem er meirihluti þingmanna. Í kosningunum 2021 voru 23 nýir kosnir, en 19 í kosningunum 2017.
Í kosningunum 2016 voru næstflestir þingmenn kjörnir, 32, en í kosningunum 2013 og 2009 stigu 27 nýir þingmenn inn á sviðið í hvorum kosningum.
„Það er mín skoðun að þetta séu of miklar breytingar og ekki gott fyrir samhengið að þetta sé svona. Það getur hins vegar enginn kveðið upp neinn dóm í þessu, því þetta er niðurstaðan í lýðræðislegum kosningum,“ segir Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis, í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hvort jafn mikil endurnýjun þingmanna og orðið hefur í undanförnum kosningum væri heppileg.
„Þetta er mikið umhugsunarefni og líka það að breytingarnar eru miklu meiri síðustu árin en þær voru áður fyrr. Þegar ég kom á þing 1991 urðu miklar breytingar á skipan Alþingis, en það var vegna þess að þá urðu mikil kynslóðaskipti á Alþingi. Í kosningunum þar á eftir urðu breytingarnar miklu minni. Það er líka merki um pólitískan stöðugleika í landinu sem ríkti í lok síðustu aldar,“ segir Einar.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag