Örn V. Kjartansson, framkvæmdastjóri og einn eigenda fyrirtækisins sem byggir á Heklureit, gagnrýnir Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, fyrir að setja fram rangar staðhæfingar um verkefnið í fjölmiðlum.
Með því vísar Örn meðal annars til ummæla sem Inga lét falla í leiðtogakappræðum RÚV síðastliðið föstudagskvöld, daginn fyrir þingkosningarnar, en þar tiltók hún Heklureit sem dæmi um reit með fáum bílastæðum þar sem illa gengi að selja íbúðir.
Með því fylgdi Inga eftir umfjöllun fjölmiðla, ekki síst Morgunblaðsins, um skort á bílastæðum á sumum þéttingarreitum en á nokkrum þeirra hefur salan gengið hægt. Skal tekið fram að Morgunblaðið hefur ekki fjallað á þann hátt um Heklureit heldur þvert á móti sagt frá því að salan á reitnum hafi gengið vel.
„Inga Sæland hefur í tvígang nefnt Heklureit sem dæmi um uppbyggingu í borginni þar sem séu örfá bílastæði og að illa gangi að selja íbúðir. Hvort tveggja er rangt,“ segir Örn og útskýrir málið.
„Bílastæðakrafan á Heklureit er 0,75 stæði á hverja íbúð en ekki 0,2 stæði á hverja íbúð eins og Inga hefur sagt opinberlega. Á Heklureit er tvöfaldur niðurgrafinn bílakjallari og í heild verða þar um 330 bílastæði þegar uppbyggingu lýkur,“ segir Örn.
Inga hafi jafnframt farið með rangt mál varðandi sölu íbúða á reitnum.
„Inga nefnir einnig að aðeins sjö íbúðir hafi verið seldar, sem er alrangt. Í fyrsta húsinu á Heklureit sem er Laugavegur 168 og komið er í sölu eru 82 íbúðir og af þeim eru 36 þegar seldar en samt er ár í afhendingu fyrstu íbúða. Þetta er vel yfir væntingum uppbyggingaraðila sem bjuggust við að íbúðir færu ekki að seljast fyrr en sex mánuðum fyrir afhendingu.
Þannig að markaðurinn er að taka þessari uppbyggingu vel. Það er umhugsunarefni þegar kjörnir fulltrúar sem hafa mikinn aðgang að fjölmiðlum hafa í frammi rangar staðreyndir um einstök byggingarverkefni í borginni. Verið getur að Inga Sæland sé að rugla saman byggingarreitum en þá þarf að vinna þá heimavinnu betur en gert er til að fara með rétt mál,“ segir Örn í tilefni af ummælum Ingu.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag