Efling varar við „svikamyllu“ í veitingageiranum

Mynd af bæklingum sem Efling dreifði í vinnustaðaheimsóknum síðastliðinn þriðjudag.
Mynd af bæklingum sem Efling dreifði í vinnustaðaheimsóknum síðastliðinn þriðjudag. Ljósmynd/Efling

Stéttarfélagið Efling varar starfsfólk í veitingageiranum við gervistéttarfélaginu Virðingu og segir að Virðing sé ekki raunverulegt stéttarfélag heldur svikamylla rekin af atvinnurekendum í þeim tilgangi að skerða laun og réttindi starfsfólks.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu en þar segir að Efling hafi staðfesta vitneskju um tilvik þar sem starfsfólki hefur verið sagt af atvinnurekanda að það eigi að starfa undir kjarasamningi Virðingar við atvinnurekendafélagið SVEIT. Tilgangur þess er að fá starfsfólk til að samþykkja lægri laun og verri kjör.

Reyndu að sannfæra Eflingu

„SVEIT hefur á liðnum árum barist fyrir gerð kjarasamnings þar sem laun starfsfólks á veitingahúsum verði lækkuð miðað við núgildandi lögvarin kjör í kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að SVEIT hafi í fyrstu reynt að sannfæra Eflingu um að ganga til kjaraviðræðna við sig á þeim forsendum, en því hafnaði félagið.

„Dró SVEIT þá Eflingu fyrir Félagsdóm, sem úrskurðaði að Eflingu bæri engin skylda til að semja við SVEIT og staðfesti jafnframt að ákvæði kjarasamnings Eflingar við SA væru lögbundin lágmarkskjör í geiranum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Efling hvetur félagsmenn sem hafa verið beðnir að vinna undir gervi-kjarasamningi Virðingar til að hafa samband við félagið án tafar. Best sé  að nota eyðublað á vefsíðu félagsins til þess:  efling.is/svikin-af-sveit/

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert