Fasteignaskattur lækkaður í Garðabæ

Afkoma sveitarfélagsins Garðabæjar styrkist.
Afkoma sveitarfélagsins Garðabæjar styrkist. mbl.is/Sigurður Bogi

Gert er ráð fyrir því í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2025 að lækka fasteignaskatt í 0,161% af fasteignamati íbúða og íbúðarhúsa.

Útsvarsprósentan á að vera óbreytt en hún er 14,71%.

„Við erum stolt af því að við lækkum fasteignaskattinn og erum sem fyrr með lægstu útsvarsprósentu meðal stærri sveitarfélaga á landinu. Þetta er okkar stefna og mikilvægt til að létta byrgðar af heimilum og fyrirtækjum,“ er haft eftir Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra Garðabæjar, en fjárhagsáætlunin var samþykkt í bæjarstjórn í dag. 

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/Arnþór

 Framkvæmdir upp á sex milljarða

Rekstrarniðurstaða A-sjóðs er jákvæð um 359 milljónir króna og rekstrarniðurstaða A- og B-sjóðs er jákvæð um 712 milljónir. 

Skuldahlutfall A-sjóðs lækkar í 119% og skuldaviðmið bæjarins verður 103,9%. 

Veltufé frá rekstri nemur um 2.949 milljónum og 9,1% af heildartekjum bæjarins. 

Garðabær áformar framkvæmdir upp á sex milljarða króna árið 2025. Þar vegur þyngst þriðji áfangi Urriðaholtsskóla með sundlaug og íþróttahúsi, mikilvægar veituframkvæmdir á Álftanesi og umbætur á leik- og grunnskólalóðum.

Misstum aldrei tökin

„Vöxtur getur verið óvinur góðs rekstrar. Við misstum aldrei tökin en sjáum að mikill bati er í grunnrekstrinum. Árið 2023 var mjög krefjandi rekstrarár hjá okkur og því ánægjulegt að sjá okkur sigla nokkuð hratt út úr þeirri mynd. Skuldir A-sjóðs hafa lækkað hlutfallslega sem er gríðarlega jákvætt því það getur verið snúið þegar sveitarfélag vex hratt,“ sagði Almar í samtali við Morgunblaðið þegar fjárhagsáætlunin var lögð fyrir fyrri umræðu í síðasta mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert