Jákvæð rekstrarniðurstaða og útsvar lækkar

Horft yfir Selfoss.
Horft yfir Selfoss. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2025, ásamt þriggja ára áætlun, var samþykkt í gær. Útsvarsprósentan er lækkuð og álagið afnumið. Rekstrarniðurstaða er jákvæð samkvæmt áætlun um 86 milljónir í A- og B-hluta án álags á útsvar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins. 

Álagið á útsvar var sett á fót að tillögu eftirlitsnefndar með rekstri sveitarfélaga en verður afnumið nú á næsta ári. Upphaflega fékk sveitarfélagið leyfi til þess að hafa álagið í tvö ár en var aðeins í gildi á liðnu ári. 

Útsvar fyrir árið 2025 verður lækkað úr 16,444% í 14,97% og álagið því tekið af vegna tekna sem aflað er á árinu 2025.

Reksturinn að verða traustari

„Það er ánægjulegt að fjárhagsáætlun sé samþykkt með jákvæðri rekstrarniðurstöðu og sveitarfélagið sé að ná báðum lögbundnum viðmiðum eftirlitsnefndar strax árið 2025. Reksturinn verður traustari en það er mikilvægt að halda stefnu og leita áfram allra leiða til hagræðingar í rekstrinum sem um leið skapar svigrúm til lækkunar álaga á íbúa.

Vil koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa komið að vinnu við áætlunina. Við gleðjumst yfir betri stöðu en höldum fókus á verkefnin framundan,“ er haft eftir Braga Bjarnasyni, bæjarstjóra Árborgar, í tilkynningunni.

Skuldaviðmiðið verði 126,6%

Í samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B hluta, verði jákvæð sem nemur 86 milljónum og að EBITDA verði jákvæð um 2.834 milljónir.

Veltufé frá rekstri er áætlað 2.073 milljónir í samstæðu sveitarfélagsins, framlegðarhlutfallið verði 13,8 og skuldaviðmiðið komið í 126,6%.

Almennar gjaldskrárhækkanir verða 3,5%, fasteignaskattur hækkar en vatns- og fráveitugjald lækkar að hluta á móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert