Keypti fimmmilljónasta eintakið af Ragnari

Ragnar Jónasson rithöfundur ásamt Kristínu Pétursdóttur leikkonu sem keypti fimmmilljónasta …
Ragnar Jónasson rithöfundur ásamt Kristínu Pétursdóttur leikkonu sem keypti fimmmilljónasta eintakið af bókum Ragnars. Ljósmynd/Bjartur

Fimmmilljónasta eintakið af bókum Ragnars Jónassonar seldist í verslun Pennans Eymundssonar í Kringlunni í gær. Það var Kristín Pétursdóttir leikkona sem keypti nýjustu glæpasögu hans, Huldu. Ragnar sat fyrir henni og áritaði eintakið.

Ragnar hefur átt mikilli velgengni að fagna að undanförnu. Fyrir fimm árum birtust fréttir af því að það hefði selst ein milljón eintaka af bókum hans. Það þýðir að um 800.000 eintök hafa selst á ári frá 2019, eða 2.192 bækur á hverjum einasta degi, allan ársins hring. Bækur hans hafa komið út á 36 tungumálasvæðum um allan heim, samkvæmt upplýsingum frá útgefanda hans.

Bók árlega frá 2009

Fyrsta bók Ragnars, Fölsk nóta, kom út árið 2009 og hefur hann sent frá sér eina glæpasögu á ári síðan þá, eða 15 talsins, sem hann hefur skrifað einn og eina skrifaði hann í samstarfi við Katrínu Jakobsdóttur.

Bækur Ragnars hafa hlotið margvíslegar viðurkenningar og má þar nefna að bálkurinn um Huldu Hermannsdóttur, Dimma, Drungi og Mistur, hlaut Palle Rosenkrantz-verðlaunin sem besta þýdda glæpasagan í Danmörku og Dimma var valin besta þýdda glæpasagan á Spáni. Snjóblinda var valin besta glæpasaga síðustu 15 ára í Frakklandi árið 2022. Lena Olin fór með hlutverk Huldu í alþjóðlegri sjónvarpsseríu sem byggð er á Dimmu og Lasse Hallström leikstýrði. Þau hafa bæði verið tilnefnd til m.a. Óskarsverðlauna, BAFTA og Golden Globe.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert