Óskar Bergsson
„Ég kvaddi þingið fyrir kosningar með þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem aldrei hefur staðið tæpar, nú þegar til stendur að raungera vægast sagt vafasama sölu á flugvallarlandi til Reykjavíkurborgar,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður.
Þar vísar þingmaðurinn í samkomulag frá 2013 milli Katrínar Júlíusdóttur þáverandi fjármálaráðherra og Dags B. Eggertssonar þá formanns borgarráðs um sölu á flugvallarlandi í Vatnsmýrinni.
Njáll Trausti segir að ráðherrann hafi aðeins haft heimild til viðræðna um sölu á landi utan flugvallargirðingar en samningurinn hefði verið um mun stærra svæði bæði innan og utan girðingar.
„Það varpaði svo ljósi á misræmið í þessu þegar Svandís Svavarsdóttir þáverandi innviðaráðherra gaf út þau tilmæli að flugvallargirðingin yrði færð til að rýma fyrir nýrri byggð í Skerjafirði.“
Hann segir mikilvægt að halda umræðu um framtíð flugvallarins vel á lofti á þessum tímamótum og boðar að hin umdeilda sala verði tekin upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þegar þingið komi saman.
Þingsályktunartillagan er þess efnis að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.