Segir Kristrúnu fara frjálslega með sannleikann

Sveinn Ægir svarar fullyrðingum Kristrúnar frá því í leiðtogakappræðunum.
Sveinn Ægir svarar fullyrðingum Kristrúnar frá því í leiðtogakappræðunum. Samsett mynd

Formaður bæjarráðs Árborgar segir að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi farið frjálslega með sannleikann er hún ræddi málefni Árborgar í leiðtogakappræðum Ríkisútvarpsins í síðustu viku. 

 „Það er kostnaðarsamt að brjóta nýtt land. Til dæmis Árborg, sveitarfélag sem Sjálfstæðisflokkurinn er að stýra í dag, og þar sem þurfti að fara í afturvirka útsvarshækkun vegna þess að þau hafa reynslu af því að það er dýrt að byggja upp nýja innviði,“ sagði Kristrún í kappræðunum. 

Sveinn Ægir Birgisson, formaður bæjarráðs, skrifar færslu á Facebook í dag þar sem hann segir að álagið sem sett var á útsvar hafi hvorki verið afturvirkt né hafi það verið lagt á vegna kostnaðarsamrar uppbyggingu innviða.

Ástæða fjárhagserfiðleika sveitarfélagsins hafi verið lausatök í rekstri sveitarfélagsins af hálfu síðasta meirihluta bæjarstjórnar. 

Lausatök í rekstri ástæða fjárhagserfiðleika

Hann segir að álagið á útsvar hafi verið neyðarúrræði vegna grafalvarlegrar stöðu sveitarfélagsins árið 2022.

Ári seinna hafi sveitarfélagið verið hársbreidd frá því að missa fjárhagslegt sjálfstæði sitt og lenda undir eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga.

„Það sem kom sveitarfélaginu í þessa stöðu voru lausatök í rekstrinum kjörtímabilið 2018-2022 undir stjórn Framsóknarflokksins, Miðflokksins, Áfram Árborgar og Samfylkingarinnar, flokks Kristrúnar Frostadóttur. 363.000 króna tap á klukkustund,“ skrifar Sveinn.

Búið að fækka stöðugildum um 6%

Hann bendir á að skuldir sveitarfélagsins hafi vaxið úr 12,3 milljörðum króna árið 2018 í 28,3 milljarða króna undir stjórn fyrrnefnds meirihluta.

Hann segir að þegar nýr meirihluti sjálfstæðismanna hafi tekið við í byrjun sumars 2022 hafi staðan verið þannig að sveitarfélagið hafi verið rekið með 363.000 króna tapi á klukkustund eða 8,7 milljóna króna tapi á dag.

Áætlanir gerðu ráð fyrir að rekstrartap ársins yrði 3,2 milljarðar.

„Strax eftir kosningar var gripið til aðgerða og hagrætt í rekstri. Þær aðgerðir báru árangur og í lok árs nam rekstrartapið 2,8 milljörðum króna,“ skrifar hann og bendir á að frá kosningum 2022 hafi meirihlutinn ráðist í uppsagnir og nú sé búið að fækka stöðugildum um 6%.

Ætti að líta sér nær

„Aðgerðirnar hafa ekki verið sársaukalausar en þær munu á endanum skila sér í lægri sköttum og betri þjónustu við alla íbúa sveitarfélagsins. Það væri virkilega ánægjulegt ef Samfylkingin og Kristrún Frostadóttir væri tilbúin að líta sér nær í stað þess að benda á einhvern annan,“ skrifar Sveinn.

Fjár­hags­áætl­un Sveit­ar­fé­lags­ins Árborg­ar fyr­ir árið 2025, ásamt þriggja ára áætl­un, var samþykkt í gær. Útsvars­pró­sent­an er lækkuð og álagið af­numið. Rekstr­arniðurstaða er já­kvæð sam­kvæmt áætl­un um 86 millj­ón­ir í A- og B-hluta án álags á út­svar.

Álagið á út­svar var sett á fót að til­lögu eft­ir­lits­nefnd­ar með rekstri sveit­ar­fé­laga en verður af­numið nú á næsta ári. Upp­haf­lega fékk sveit­ar­fé­lagið leyfi til þess að hafa álagið í tvö ár en það var aðeins í gildi á liðnu ári.

Útsvar fyr­ir árið 2025 verður lækkað úr 16,444% í 14,97% og álagið því tekið af vegna tekna sem aflað er á ár­inu 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert