Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að Virðing, stéttarfélag sem hún kallar „gervistéttarfélag“, hafi vakið athygli Eflingar eftir að ungur maður hafi komið til stéttarfélagsins fyrir um viku síðan með launaseðil þar sem fram komu atriði sem félagið telur brot á kjörum og réttindum launafólks.
Í framhaldinu sendi Efling frá sér tilkynningu þar sem varað er við stéttarfélaginu og það sagt „svikamylla“ og „gerivistéttarfélag“.
„Við getum nefnt fjölmörg dæmi. Ef þú ert að vinna vaktir og ert á launatöflu þessa stéttarfélags þá verður þú fyrir launatapi upp á um 52 þúsund krónur,“ segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is.
„Þá eru orlofsréttindi skert, ungmennakjör eru skert, uppsagnarfresturinn er styttri, ráðist er að veikindarétti og rétt vegna veikinda barna, hátíðardögum er fækkað þar sem greidd eru hærri laun og ráðist er að rétti barnshafandi kvenna og eru ekki með neinn sjúkrasjóð. Það eitt og sér er ólöglegt.“
Virðing stéttarfélag var stofnað í október síðastliðnum að því er fram kemur í fyrirtækjaskrá.
Fullyrt er í tilkynningu frá Eflingu sem send var út í morgun að félagið sé stofnað af atvinnurekendum í veitingabransanum.
Virðing hefur gert kjarasamning við SVEIT, Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, og nálgast má hann á heimasíðu samtakanna.
Að sögn Sólveigar Önnu var málið rætt á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands í gær.
„Ég og forseti ASÍ munum fara á fund Sigríðar Margrétar [Oddsdóttur], framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, til að ræða þetta mál. Við vonumst til þess að Samtök atvinnulífsins muni taka höndum saman með okkur og senda þau skilaboð út til fyrirtækja sem eru í SA og SVEIT, að þarna sé aðför að þeim lögum og reglum sem eru í gildi á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Sólveig Anna.
„Og að fólk sé einfaldlega varað við því að taka þátt í þessari starfsemi og það hvatt til þess að gera það ekki.“
Að sögn hennar hefur Efling áður haft afskipti af því sem hún kallar „gulum stéttarfélögum“.
Þannig var stéttarfélagið Kópur fordæmt árið 2020 en stéttarfélagið hætti starfsemi í framhaldinu.