Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur lokið störfum á þessu ári en fjármagnið til nefndarinnar í ár er uppurið.
Nefndin getur úrskurðað um nær allan einkaréttarlegan ágreining utan dómstóla sem neytendur eiga við fyrirtæki um kaup á vörum eða þjónustu og eru úrskurðir nefndarinnar aðfararhæfir nema seljandi uni ekki úrskurðinum.
Fer hann þá á sérstakan lista á vefsíðu nefndarinnar.
Hildur Ýr Viðarsdóttir, formaður kærunefndar vöru- og þjónustukaupa, segir nefndina hafa verið undurfjármagnaða lengi og bent hafi verið á það margoft í minnisblöðum og tölvupóstum.
Segir hún nefndina ekki alltaf hafa verið á fjárlögum en sé það nú og þannig þurfi að passa að ekki sé farið fram úr því sem áætlað er í þeim til nefndarinnar.
Hildur segir verulega fjölgun hafa orðið á málum sem nefndinni berist. Sennilega séu komin 30 mál fram yfir heildarmálafjöldann frá síðasta ári þrátt fyrir að enn sé nærri mánuður eftir af þessu ári. „Peningarnir eru búnir fyrir árið 2024. Á árinu 2025 er ekki gert ráð fyrir auknu framlagi þannig að við sjáum fram á að þurfa að hætta upp úr miðju næsta ári,“ segir Hildur.
Aðspurð segir hún í raun ekki mögulegt að skera niður í rekstri.
„Við erum bara með tvo löglærða starfsmenn svo niðurskurðurinn felst í því að halda hvorki fundi né úrskurða í málum,“ segir hún og bætir við að nefndarmenn séu ekki á neinum ofurlaunum og kannski ólíklegt að þeir séu tilbúnir að starfa í sjálfboðavinnu fyrir nefndina.
Lilja Alfreðsdóttir, fráfarandi menningar- og viðskiptaráðherra, lagði í haust fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda í neytendamálum frá 2024-2030. Í aðgerðaáætlun kemur fram að kærunefndir á sviði neytendamála verði efldar til að sinna lögbundnum verkefnum sínum. Það skýtur því skökku við að engin aukin framlög fari í rekstur nefndarinnar á næsta ári. Töluverðar tafir verða á afgreiðslu ágreiningsmála vegna þessa.