Ákvörðun um ákæru liggur fyrir á næstu dögum

Frá rannsókn lögreglu á vettvangi í september.
Frá rannsókn lögreglu á vettvangi í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra á hendur manninum sem er grunaður um að hafa orðið dóttur sinni að bana, hinni tíu ára gömlu Kolfinnu Eldeyju Sigurðardóttur, mun liggja fyrir á allra næstu dögum.

Á mánudaginn verða liðnar 12 vikur frá því hinn grunaði var hnepptur í gæsluvarðhald en samkvæmt lögum um meðferð sakamála er aðeins heimilt að vista grunaða í gæsluvarðhaldi í 12 vikur án þess að ákæra sé gefin út gegn þeim.

Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir við mbl.is að málið sé komið inn á borð saksóknara og það blasi við að ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra verði tekin fyrir mánudaginn.

Eins og mbl.is greindi frá í fyrradag hefur lögregla lokið rannsókn á manndrápsmálinu. Stúlkan fannst látin við Krýsuvíkurveg þann 15. september síðastliðinn og var faðir hennar handtekinn við Krýsuvíkurveginn daginn sem líkið fannst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert