Andlát: Árni Indriðason

Árni Indriðason, sagnfræðingur og menntaskólakennari, lést á Landspítalanum í Fossvogi 4. desember síðastliðinn, 74 ára að aldri.

Árni fæddist í Reykjavík 3. júní 1950. Foreldrar hans voru Indriði Sigurðsson stýrimaður og Erla Árnadóttir bókavörður. Systkini Árna eru Anna Sigríður, hjúkrunarfræðingur, f. 1949, Sigurður, skrifstofumaður,
f. 1953, og Kári, eðlisfræðingur, f. 1961.

Árni ólst upp á Melabraut á Seltjarnarnesi og gekk í Mýrarhúsaskóla. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1970 og lauk cand. mag. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1977.

Árni hóf að kenna sögu við Menntaskólann í Reykjavík árið 1977. Þar kenndi hann einkum sögu Grikkja hinna fornu og sögu Rómaveldis annars vegar en mannkyns- og Íslandssögu 19. og 20. aldar hins vegar. Hann gegndi þessu starfi allan sinn starfsferil og lagði þannig gott til þúsunda íslenskra ungmenna í áratugi. Meðfram kennslu gegndi hann auk þess margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir skólann.

Árni var þjóðkunnur handknattleiksmaður á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Fyrst vakti hann athygli með Gróttu á Seltjarnarnesi, en svo sem einn máttarstólpa hins sigursæla liðs Víkings undir stjórn Bogdan Kowalczyk, sem var fyrir fáum árum útnefnt besta handboltalið Íslandssögunnar. Síðar sinnti hann þjálfun þessara liða og fleiri við góðan orðstír, samhliða kennslu. Árni lék 60 leiki fyrir íslenska handboltalandsliðið og var um skeið fyrirliði liðsins.

Eftirlifandi eiginkona Árna er Kristín Klara Einarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri, f. 1952. Árni lætur eftir sig börnin Hjalta, lögfræðing, f. 1970, Einar Baldvin, lögmann, f. 1974, Erlu Kristínu, lögfræðing, f. 1976 og Hildi, menntaskólakennara, f. 1981. Barnabörnin eru alls átta.

Útför Árna fer fram frá Neskirkju mánudaginn 16. desember næstkomandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert