Andlát: Jón Nordal

Jón Nordal.
Jón Nordal.

Jón Nor­dal, tón­skáld og fyrr­ver­andi skóla­stjóri Tón­list­ar­skól­ans í Reykja­vík, lést í gær, 5. des­em­ber, á 99. ald­ursári. Jón var meðal ást­sæl­ustu tón­skálda þjóðar­inn­ar og einn helsti for­ystumaður í upp­bygg­ingu tón­list­ar­lífs á Íslandi síðastliðna öld.

Jón Nor­dal fædd­ist á æsku­heim­ili sínu á Bald­urs­götu 33 í Reykja­vík 6. mars 1926. For­eldr­ar hans voru Ólöf Nor­dal og Sig­urður Nor­dal pró­fess­or. Eldri systkini hans voru Bera, f. 1923, d. 1927, og Jó­hann­es, síðar seðlabanka­stjóri, f. 1924, d. 2023.

Jón lauk burt­farar­prófi í pí­anó­leik frá Tón­list­ar­skól­an­um í Reykja­vík 1948 og tón­smíðum 1949. Hann stundaði fram­halds­nám í pí­anó­leik og tón­smíðum í Zürich í Sviss 1949-1951, auk náms­dval­ar í Par­ís, Róm og Darmsta­dt 1956-1957. Jón var skóla­stjóri Tón­list­ar­skól­ans í Reykja­vík í 43 ár, eða frá ár­inu 1959 til 1992, auk þess að kenna pí­anó­leik og tón­fræði. Tón­list­ar­skól­inn var um ára­bil æðsta mennta­stofn­un lands­ins í tónlist og braut­skráði flesta hér­lenda at­vinnu­tón­list­ar­menn. Jafn­framt lagði skól­inn grunn að al­mennri tón­list­ar­kennslu um land allt með mennt­un hljóðfæra­kenn­ara og tón­mennta­kenn­ara. Sem pí­anó­leik­ari hélt Jón tón­leika hér á landi og er­lend­is, bæði sem ein­leik­ari og í sam­leik.

Jón sat í ýms­um nefnd­um varðandi tón­list­ar­mál og var í stjórn STEFs 1968-1987. Hann var í stjórn Tón­skálda­sjóðs Rík­is­út­varps­ins í 47 ár til árs­ins 2017. Þá var hann einn stofn­enda Musica Nova, fé­lags­skap­ar um flutn­ing nú­tíma­tón­list­ar á Íslandi, og fyrsti formaður hans 1959.

Jón Nor­dal var af­kasta­mikið tón­skáld og mik­ill hvatamaður að ný­sköp­un í tónlist. Eft­ir hann liggja stór hljóm­sveit­ar­verk og ein­leikskonsert­ar, margs kon­ar kammer­tónlist og ein­leiks­verk, org­el­verk, kór­lög og stærri kór­verk, leik­hús­tónlist, söng­lög og fleira. Jón er höf­und­ur laga sem eiga sér­stak­an sess hjá þjóðinni og má þar nefna söng­lagið „Hvert ör­stutt spor“ við ljóð Hall­dórs Lax­ness og kór­lagið „Smá­vin­ir fagr­ir“ við ljóð Jónas­ar Hall­gríms­son­ar, sem Jón samdi ein­ung­is 14 ára gam­all.

Jóni hlotnaðist margs kon­ar heiður og má þar nefna stór­ridd­ara­kross hinn­ar ís­lensku fálka­orðu og ridd­ara­kross dann­e­brogs­orðunn­ar.

Jón var í heiðurs­launa­flokki Alþing­is frá 1983 og hlaut heiður­s­nafn­bót Íslensku tón­list­ar­verðlaun­anna 2010, auk fleiri viður­kenn­inga. Þá var Jón fé­lagi í kon­ung­legu sænsku tón­list­araka­demí­unni frá 1968.

Eig­in­kona Jóns var Sol­veig Jóns­dótt­ir mennta­skóla­kenn­ari, f. 1932, d. 2012. For­eldr­ar henn­ar voru Þór­unn Björns­dótt­ir og Jón Helga­son, pró­fess­or í Kaup­manna­höfn. Börn Jóns og Sol­veig­ar eru Hjálm­ur, Ólöf og Sig­urður.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert