Gæti verið stutt í goslok

Dregið hefur úr virkni í eldgosinu sem hófst 20. nóvember.
Dregið hefur úr virkni í eldgosinu sem hófst 20. nóvember. mbl.is/Hákon

Dregið hefur úr virkni í eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni sem hófst 20. nóvember og það gæti verið stutt í goslok.

Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að gosóróinn hafi verið á hægri niðurleið síðustu þrjá daga og það hafi dregið örlítið úr virkni gossins.

„Gosið lifir enn. Hraunflæðið er aðallega í kringum gíginn og það er mjög hægt framskrið á flæðinu á austasta hluta hraunjaðarsins sem er við Fagradalsfjall,“ segir Jóhann Malen við mbl.is.

Spurð hvort gosið sé að lognast útaf segir hún:

„Já eins og það lítur út núna og miðað við að þetta haldi áfram eins og hefur verið síðustu daga. En svo getur vel verið að það taki við sér að nýju. Það er ljóst að gosið er klárlega á niðurleið en staðan á því getur alveg breyst,“ segir hún.

Á Facebook síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóps segir að verulega hafi dregið úr gosinu síðasta sólarhringinn og ljóst að stutt er í goslok. Samhliða þessu hefur gosórói verið á niðurleið undanfarna daga.

„Afar lítil virkni var sjáanleg í nótt, en þó var enn glóð í gígnum við dögun. Lítið sem ekkert hraun virðist lengur renna á yfirborði. Þessa stundina rýkur rólega upp úr gígnum og engar hraunslettur sjáanlega,“ segir enn fremur í færslunni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert