Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings samþykkti á fundi sínum í gær að úthluta Íslandsþara ehf. lóð fyrir starfsemi fyrirtækisins í Búðarfjöru 1 sem er á hafnarsvæðinu á Húsavík.
Atkvæði féllu þannig að fimm voru hlynntir úthlutuninni, tveir voru andvígir og tveir sátu hjá. Umsókn þessa efnis var tekin fyrir í skipulags- og framkvæmdaráði Norðurþings 12. nóvember og samþykkt þar af meirihluta ráðsins að leggja til við sveitarstjórn að fyrirtækið fengi úthlutaða téða lóð.
Á umliðnum árum hefur talsvert verið fjallað um áform Íslandsþara ehf. um þurrkun og vinnslu á stórþara og var málið lengst af umdeilt í héraði. Höfðu íbúar áhyggjur af hljóð- og lyktarmengun sem starfseminni fylgdi, en þær áhyggjur hafa dvínað þar sem vinnsluaðferðir hafa tekið breytingum.
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings segir í samtali við Morgunblaðið að ekkert ryk eigi að myndast við þurrkun þarans og engin lykt berast af útgufun frá verksmiðjunni.
„Ef áætlanir fyrirtækisins ganga eftir koma hér 20-30 ný störf inn í atvinnulífið á næstu árum. Mér finnst það stórt skref fyrir Norðurþing að fá þau atvinnutækifæri hingað,“ segir hún.
Gert er ráð fyrir 19 störfum í landi og 10 sjávartengdum störfum við þarasöfnunina. Strax og starfsemin hefst gerir fyrirtækið ráð fyrir tæplega 15 stöðugildum sem fari síðan fjölgandi.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag