Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfu Karls Emils Wernerssonar í skattamáli.
Karl höfðaði mál á hendur ríkinu árið 2022 og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar frá 20. desember 2017 þar sem fallist var á niðurstöðu ríkisskattstjóra um að nánar tilteknar greiðslur frá félaginu Nordic Pharma Invest til Karls væru tekjur en ekki arður.
Deilt var um um lögmæti þeirrar ákvörðunar ríkisskattstjóra að fella niður í skattframtölum Karls árin 2007, 2008 og 2009 framtaldar arðgreiðslur frá Nordic Pharma Invest að fjárhæð 500.000.000 króna fyrir fyrsta árið, 300.000.000 króna annað árið og 350.000.000 króna þriðja árið og færa karli þessar greiðslur í skattframtölumhans umrædd ár sem „sérhverjar aðrar tekjur eða ígildi tekna“ er skattskyldar væru á grundvelli hins almenna ákvæðis 9. töluliðar C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt þannig að þær féllu undir almennt skattþrep tekjuskatts.
Í dómi Landsréttar var rakið að skattyfirvöld hefðu aflað þeirra gagna sem tiltæk hefðu verið hjá yfirvöldum á Bresku Jómfrúaeyjum, þar sem félagið var skráð, og Karli gerð skýr grein fyrir þeim upplýsingum og gögnum sem skattyfirvöld töldu þörf á vegna fullyrðinga hans.
Karl hefði hins vegar ekki sinnt upplýsingaskyldu 1. mgr. 94. gr. laga um tekjuskatt og hann ekki talinn hafa lagt fram fullnægjandi gögn sem sönnuðu að nánar tiltekin skilyrði þarlendra laga um greiðslu arðs hefðu verið uppfyllt.
Þá var álit lögmanns frá Bresku Jómfrúaeyjum, sem aflað var eftir að úrskurður yfirskattanefndar hefði gengið, ekki talið styðja málatilbúnað Karls um að téður úrskurður væri rangur að efni til.
Að endingu var ekki fallist á að sex ára frestur til endurákvörðunar skatts samkvæmt lögum um tekjuskatt hefði verið liðinn.
Sýkna ríkisins var því staðfest og Karli gert að greiða ríkinu eina milljón kr. í málskostnað.