Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að hætta rannsókn á máli sem sneri að meintum aðdróttunum og ærumeiðingum sem birtust í aðsendri grein þar sem Matvælastofnun (MAST) var harðlega gagnrýnd og sökuð um mútur.
Málið varðar skoðanagrein, sem birtist á Vísi í júlí, sem Ester Hilmarsdóttir skrifaði undir yfirskriftinni „Af glyðrugangi eftirlitsstofnana“. Greinin var skrifuð í tilefni þess að MAST veitti Arnarlaxi ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis á þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi.
MAST kærði skrifin til lögreglunnar og var talið að eftirfarandi ummæli vörðuðu refsingu: „En þrátt fyrir þessar niðurstöður skakar starfsfólk MAST sér í skrifstofustólum og skrjáfar í seðlunum sem norskir auðkýfingar hafa stungið í vasa þeirra, um leið og þau skrifa undir rekstrarleyfið þvert á mat Samgöngustofu og þrátt fyrir mótmæli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar.“
Lögreglan segir í tölvupósti til MAST, sem mbl.is hefur undir höndum, og þar sem greint er frá því að málið sé látið niður falla, að tekin hafi verið skýrsla af Ester þar sem hún neitaði sök. Hún vísaði til tjáningarfrelsis sem verndað væri í stjórnarskrá og benti á að hún hefði aldrei sakað neinn tiltekinn starfsmann um mútur.
Það er mat lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, að slíkar ásakanir og/eða aðdróttanir þurfi að beinast að tilteknum manni sem gegnir opinberri stöðu til að refsað verði fyrir brot á ákvæðunum.
Lögreglan fellst þó á að þessar aðdróttanir séu alvarlegar en í greininni sé engin tilgreining á hvaða starfsmaður eða starfsmenn MAST eigi að hafa þegið mútur og þótt einhverjir starfsmenn stofnunarinnar taki aðdróttunina meira til sín vegna aðkomu að málinu. Það er því mat lögreglustjórans á Norðurlandi eystra að málið sé ekki nægilegt eða líklegt til að málsmeðferð fyrir dómi muni ljúka með refsiákvörðun.
Þá er tekið fram að opinberir starfsmenn þurfi almennt að sæta því að þola óvægna gagnrýni á störf sín. „Opinberir starfsmenn þurfa að fara aðrar leiðir en dómsmeðferð meðan gagnrýni eða aðdróttanir eru ekki persónugerðar meira en gert er í þessari grein,“ segir lögreglan á Norðurlandi eystra.