Rafmagnsverð á Íslandi hefur hækkað um 13,2% síðustu 12 mánuði, samkvæmt samantekt Samtaka iðnaðarins (SI), og er þetta mesta hækkun í 13 ár. Raunverð raforku hafi hækkað um 8,4% síðasta árið.
Samtökin segja hækkunina á raforkuverði endurspegla þá stöðu að raforkuframleiðsla hafi ekki haldið í við vöxt og viðgang samfélagsins, þar á meðal fólksfjölgun. Samantektin er unnin meðal annars upp úr ársreikningum Landsvirkjunar og vísitölu raforku frá Hagstofunni.
„Hækkunin hefur verið minni hjá heimilum heldur en hjá fyrirtækjum undanfarin ár en talsverð hækkun hefur orðið á þessu ári umfram vísitölu neysluverðs. Auk þess hefur verðið hækkað býsna mikið í útboðum síðustu tvo mánuðina. Ef þessar vísbendingar sem við sjáum gefa fyrirheit um framtíðina verður ástandið með þessum hætti næstu árin. Stjórnvöld voru værukær í allt of langan tíma og nú eru afleiðingarnar af því komnar fram. Það mun taka mörg ár að vinna úr þeirri stöðu,“ segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI í samtali við Morgunblaðið og vísar til tímabils á árunum 2008-2021. Eftir það hafi stjórnvöld tekið við sér að hans mati en hann bendir á að raforka verði ekki til á einni nóttu.
„Ný raforka mun ekki koma inn á kerfið fyrr en eftir um tvö ár þegar Búrfellslundur verður tekinn í notkun. Fjögur eða fimm ár eru þar til Hvammsvirkjun verði tekin í notkun og því er langt í að staðan breytist. Við erum farin úr því að vera land með næga raforku yfir í skort á raforku með tilheyrandi verðhækkunum.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag